Við vöknuðum við glampandi sól í gær og stelpurnar voru spenntar fyrir síðasta heila deginum í Vindáshlíð, veisludegi. Eftir morgunmat og morgunstund fóru allar stelpurnar niður í íþróttahús þar sem úrslitaleikir í brennó fóru fram. Reynihlíð og Víðihlíð kepptu um 3.-4. sæti og Hamrahlíð og Barmahlíð kepptu um 1. sætið þar sem Hamrahlíð stóð uppi sigurvegarar. Sumar halda áfram að spila skotbolta og brennó í íróttahúsinu en aðrar léku sér úti í góða veðrinu, gerðu fastar fléttur í hvora aðra eða gerðu vinabönd. Eftir hádegismat fór fram hin geysivinsæla hárgreiðslukeppni Vindáshlíðar og má sjá myndir af útkomum stelpnanna ásamt öðrum myndum úr flokknum á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709816576021

Vatnsmelónur og brownies voru á boðstólnum í kaffitímanum og í framhaldi af því var vinagangur á meðan foringjar skreyttu matsalin og undirbjuggu hátíðarkvöldvöku. Vinagangur fer þannig fram að hvert herbergi undirbýr eitthvað spennandi í sínu herbergi til að bjóða uppá fyrir hinar stelpurnar og svo er opið hús hjá öllum. Að þessu sinni var ýmist nudd, naglalökkun, hárgreiðsla, leikir, kósístund, spádómur og óvæntar uppákomur í boði. Klukkan 18 voru síðan allir komnir í sitt fínasta púss. Hringt var bjöllunni og við hittumst uppi við fánastöng og sungum „Vefa mjúka“ alla leið niður á fótboltavöll og fórum þaðan inn í hús. Gömul og skemmtileg hefð sem enn er haldið við í Vindáshlíð. Við tókum hópmynd af öllum herbergjum með sínum bænakonum og svo hófst veislukvöldverður. Eftir pizzaveislu og afhendingu viðurkenninga fyrir íþróttakeppnir og fleira hélt fjörið áfram á kvöldvöku. Við enduðum daginn á hugleiðingu og klukkan var orðin margt þegar bænakonur komu herbergjunum sínum í ró og stelpurnar skriðu undir sæng. 

Í morgun fengu svo allir að sofa örlítið út. Síðasti dagurinn fer í að pakka, spilla brennó við foringja, hádegismat úti í sólinni, kveðjustund í kirkjunni en rútan leggur af stað í bæinn kl 15. Við biðjum foreldra og forráðamenn að mæta á Holtaveg milli 15:45 og 16 til að taka á móti stelpunum. Við minnum á að hringja og láta vita í 5667044 ef stelpur verða sóttar uppí Vindáshlíð. 

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilegan flokk og góða daga með þessum yndislegu stelpum.

Óskilamuni verður hægt að nálgast á Holtavegi 28.

Hlýjar kveðjur,
Kristín forstöðukona