85 stelpur komu með rútum í fallegu veðri uppí Vindáshlíð í gærmorgun. Foringjarnir tóku hlýlega á móti þeim, fóru yfir reglur, kynntu fyrir þeim staðinn og svo var hópnum skipt upp í 11 herbergi. Eftir hádegismat var ratleikur, þar sem herbergin unnu saman í hóp, eltu vísbendingar út um allar trissur og svöruðu spurningum um hitt og þetta. Eftir kaffitíma þar sem sem stelpurnar fengu nýbakað bananabrauð og smá köku hófst hin sívinsæla brennókeppni. Einnig var keppt í húshlaupi þar sem stelpurnar reyndu að hlaupa eins hratt og þær gátu hringinn í kringum aðalskálann í Vindáshlíð. Fjögur herbergi undirbjuggu leikrit og leiki fyrir kvöldvöku sem hófst eftir kvöldmat en öll herbergin fá einu sinni að koma að kvöldvökunni. Stelpurnar voru margar hverjar orðnar lúnar eftir fjörugan dag þegar kvöldkaffi lauk og við settumst saman niður til að ljúka deginum í setustofunni. Þar sungum við nokkur falleg lög saman og María foringi hélt hugleiðingu um það hversu dýrmætar við allar erum í augum Guðs. Eftir hugleiðingu fóru margar út í læk til að busta tennurnar og allar voru komnar í náttföt og á leið upp í rúm kl 21:45 þegar bænakonur komu inn í sín herbergi til að koma stelpunum í ró.
Góður og sólríkur dagur að baki. Stútfullur flokkur af flottum stelpum, mikil stemning og við hlökkum til að kynnast þeim öllum vel á komandi dögum.
Myndir úr flokknum má nálgast á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157710152393711
Bestu kveðjur úr Vindáshlíð,
Kristín forstöðukona