Í gær, föstudag, var veisludagur í Vindáshlíð. Í morgunmat máttu stelpurnar fá cocoa puffs í tilefni þess að þær voru orðnar Hlíðarmeyjar en þegar maður hefur gist þrjár nætur í Vindáshlíð má maður formlega bera það nafn. Eftir morgunmat, fánahyllingu í sólinni og morgunstund í kirkjunni fóru fram undanúrslita og úrslitaleikir í brennó. Eftir æsispennandi úrslitaleik stóðu Lækjarhlíð uppi sem sigurvegarar. Síðasta íþróttakeppnin í Vindáshlíð var broskeppni og ég er ekki frá því að allar í húsinu hafi tekið þátt. Hárgreiðslukeppni fór fram eftir hádegismat en keppt var um flottustu, frumlegustu, krúttlegustu og skrítnustu hárgreiðsluna. Eftir kaffi var vinagangur þar sem stelpurnar buðu upp á ýmislegt skemmtilegt í herbergjunum sínum og buðu hinum að kíkja í heimsókn. Meðal þess sem var í boði var nudd, hárgreiðsla, bangsapössun, laser-herbergi, draugahús, naglalökkun og vinabandagerð. Við klæddum okkur allar í betri föt fyrir kvöldmat en foringjarnir höfðu skreytt matsalinn og undirbúið hátíðardagskrá fyrir kvöldið. Það var heimabökuð pizza í matinn og svo voru viðurkenningar og bikarar afhentir fyrir keppnir vikunnar. Stelpurnar byrjuðu að pakka niður í töskur fyrir kvöldvöku og eftir mikil hlátrasköll, söng og gleði lukum við deginum eins og alltaf inná setustofu með hugleiðingu. Brosandi stelpur lögðust á koddann í seinna lagi í gærkvöldi og fengu því að sofa hálftíma lengur út í morgun.

Rútan kemur í dag, laugardag, á Holtaveg uppúr kl. 15:45. Ég brýni á að láta strax vita í síma 5667044 ef stelpur verða sóttar uppí Vindáshlíð í dag.

Myndir úr flokknum má nálgast á eftirfarandi síðu: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157710152393711

Svo er einnig gaman að fylgja Vindáshlíð á Instagram: https://www.instagram.com/vindashlid

Við þökkum kærlega fyrir að hafa fengið að eiga þessa góðu daga í Vindáshlíð með stelpunum ykkar og vonumst til að sjá sem flestar að ári liðnu. 🙂

Alla óskilamuni má nálgast á skrifstofu KFUM og KFUK á  Holtavegi 28.

Fyrir hönd foringja og annarra starfsmanna sendi ég hlýjar kveðjur úr Hlíðinni,

Kristín forstöðukona