Frétt sem fór ekki inn í gær – afsakið það.

Í gær (mánudag) komu hingað 82 stúlkur. Flestar hafa komið áður en nokkrar eru að koma hingað í fyrsta sinn. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjum var hádegismatur. Í hádegismat var grjónagrautur. Eftir hádegismat var farið í leik sem heitir Amazing Race, herbergin vinna þá saman að því að leysa ýmsar þrautir og safna stigum á fjölbreyttan hátt. Í kaffinu var boðið upp á smákökur og möndluköku. Eftir kaffi hófst hin sívinsæla brennókeppni, en herbergin ellefu keppa sín á milli um titilinn „brennómeistarar Vindáshlíðar “. Keppnin er æsispennandi og ljóst að brennómetnaðurinn hjá þessum stúlkum er mikill. Eftir kaffi hófst einnig íþróttakeppnin, en á hverjum degi er keppt í mismunandi greinum, þær eru mjög fjölbreyttar, má nefna stígvélaspark, húshlaup og broskeppni. Í kvöldmat var pulsupasta og grænmeti. Um 8 leytið var hringt á kvöldvöku. Farið var í hópeflisleiki í íþróttahúsinu okkar.

Eftir kvöldvöku er alltaf kvöldkaffi og hugleiðing. Stúlkurnar fengu að bursta tennurnar úti í læk (þær máttu líka bursta tennurnar inni ef þær vildu það frekar). Eftir að allar stúlkurnar höfðu undirbúið sig fyrir svefninn hófst bænakonuleit. Hvert herbergi er með sína bænakonu sem endar daginn með þeim, en áður en bænakonutíminn byrjaði þurftu stúlkurnar að finna sína bænakonu út frá vísbendingum. Það tók sinn tíma en að lokum fundu öll herbergin bænakonuna sína. 

Dagur tvö rann upp en hann var ekki bjartur og fagur því það var heldur haustlegt úti. Við létum það þó ekki á okkur fá. Eftir hefðbundna morgundagskrá sem samanstóð af morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri var frjáls tími þar sem stelpurnar gátu leikið sér úti eða inni, keppt í íþróttakeppni dagsins sem var armbeygjukeppni. Einnig voru nokkrir brennóleikir spilaðir. 

Í hádegismat voru fiskibollur og meðlæti. Eftir hádegi var hermannaleikurinn, sem hefur verið með vinsælli dagskrárliðum í Vindáshlíð frá árinu 2005. Í hermannaleiknum setja stelpurnar sig í hlutverk flóttamanna á stríðshrjáðu svæði og eiga herbergin að vinna saman sem fjölskylda til að finna griðarstaðinn. Leikurinn gekk vel en vakti sterkar tilfinningar bæði hræðslu, spennu og ánægju, yfirleitt allar í bland. Leikurinn á að minna okkur á þau forréttindi sem við höfum að búa á Íslandi þar sem við erum öruggar en á sama tíma að minna okkur á að ekki eru allir svo heppnir. Leiknum fylgir alltaf góð umræða um stríð og frið og hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að hjálpa fólki sem býr við stríð. 

Í kaffitímanum var boðið upp á sjónvarpsköku og kryddbrauð og eftir kaffi var aftur frjáls tími, brennóleikir og íþróttakeppni. Í kvöldmat voru svo tortillur með hakki og grænmeti. 

Á kvöldvöku var farið í spurningakeppni sem heitir Éttu Pétur. Síðan var haldið í kvöldkaffi og hugleiðingu.

Bænakonurnar brugðu út af vananum og komu ekki til stelpnanna eftir hugleiðingu heldur var óvænt náttfatapartý. Það var mikið stuð inni í matsal, dansað út um allt – meðal annars uppi á borðum. Síðan voru foringjarnir með skemmtiatriði í setustofunni. 

Bænakonur enduðu svo daginn, aðeins seinna en venjulega. 

Ef þið finnið okkur á Instagram (@vindashlid) þá getið þið séð nokkrar klippur úr náttfatapartýinu. Endilega fylgist með þar það sem eftir er vikunnar. 

Flokkurinn klárast á föstudaginn og kemur rútan á Holtaveg klukkan 15:45 ef allt gengur samkvæmt áætlun. 

Bestu kveðjur úr Vindáshlíð

Pálína forstöðukona.