Lífið leikur við okkur Hlíðarmeyjar þessa dagana. Við erum nú komin vel á veg með þriðja dag 1.  flokks og 83 stelpur eru í þessum töluðu orðum að njóta góða veðursins með því að sprikla í vatninu við Brúðarslæðu, foss sem er í smá göngufjarlægð frá Vindáshlíð.

Við komu í Vindáshlíð var stelpunum skipt í herbergi samkvæmt þeirra eigin óskum og þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og borða var farið í ratleik. Þar fengu stelpurnar að kynnast starfsfólki Vindáshlíðar, húsinu okkar og nærumhverfi. Langstærstur hluti hópsins sem er hingað kominn í 1. flokk er að koma í Vindáshlíð í fyrsta skipti en eru flestar orðnar vel heimakærar, en þannig viljum við auðvitað hafa það.

Í gær á öðrum degi brugðu stelpurnar sér í gervi kinda og fóru í réttarleik í réttum sem eru niðri við veg. Þar fyrir utan voru hinar daglegu íþróttakeppnir og hinir daglegu brennóleikir, og þær eru hér að útskrifast sem vinabanda-meistarar hver á fætur annarri. Eftir kvöldvöku og hugleiðingu ákváðu foringjar svo að skella á óvæntu náttfatapartýi sem vakti gríðarlega lukku. Við sungum, dönsuðum, og skemmtum okkur saman. Tóti tá-álfur kíkti þar í heimsókn, ásamt félögunum Kalla og Palla, og saman kenndu þeir stelpunum mikilvægi þess að þvo á sér tærnar. Eftir mikinn hlátur yfir uppátækjum þeirri þriggja fengu allar stelpurnar ís og sögu fyrir svefninn. Það voru mjög þreyttar stúlkur sem lögðust til hvílu í gærkvöldi og sofnaði nær allur flokkurinn samstundis.