Foringjar tóku á móti 82 glaðværum stelpum í Vindáshlíð í gær. Mikil spenna var í hópnum og allir tilbúnir að taka þátt í ævintýraflokk þar sem dagskráin er stútfull af óvæntum uppákomum og spennandi leikjum. Það var smá rigning þegar stelpurnar mættu en það leið ekki á löngu fyrr en sólin var farin að skína uppi í Kjós sem gladdi jafnt stelpur sem starfsmenn. Flestar stelpurnar í flokknum hafa komið áður í Vindáshlíð en við tókum góðan tíma fyrir hádegismat að raða í herbergi, sýna nýjum stelpum staðinn og fara yfir öryggisatriði og reglur. Í hádegismat var kjúklingur, franskar og salat sem var borðað af bestu lyst. Eftir mat var svo haldið í  óvenjulegan ratleik sem við köllum “Amazing Race”, stelpurnar þutu um allt svæðið að leysa þrautir og safna stigum. Það var gætt sér á köku í kaffitímanum og í framhaldi af því hófust ýmsir hefðbundnir liðir í dagskrá Vindáshlíðar svo sem brennó- og íþróttakeppnir og vinabandagerð. Eftir kvöldmat fór hópurinn í leiki með foringjum úti í góða veðrinu en kom svo inn í kvöldkaffi og rólega söngstund og hugleiðingu í setustofunni. Mikil eftivænting var að finna út hvaða bænakonur herbergin fengu og áður en þær fóru að sofa fengu þær vísbendingu og þurftu að leita á svæðinu af sinni bænakonu. Þetta vakti mikla lukku og hægt en bítandi fundust bænakonurnar og allir týndust í sín herbergi. Það getur verið erfitt að gista fyrstu nóttina sína í sumarbúðum en stelpurnar stóðu sig eins og hetjur og voru duglegar að láta vita ef þær þurftu spjall eða smá hvatningu. Ekki leið á löngu fyrr en það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar.

Þetta er yndislegur hópur hér í ævintýraflokki. Fjörugar, skemmtilegar og flottar stelpur sem við hlökkum til að kynnast betur.

Ég minni á að foreldrar og forráðamenn geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma  566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum.

Við munum einnig vera duglegar að setja myndir úr flokknum á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714736712698/with/50011599928/

Hlýjar kveðjur,
Kristín forstöðukona