Ævintýraflokkurinn gengur mjög vel hjá okkur í Vindáshlíð! Sólin heldur áfram gleðja okkur og mikil stemming er í hópnum.
Stelpurnar voru vaktar kl 9 í gærmorgun, fengu morgunmat og svo var haldið út í fánahyllingu sem er gömul og góð hefð sem við höldum í hér í Hlíðinni. Í framhaldi fóru stelpurnar niðrí kvöldvökusal en alla daga fer þar fram morgunstund með forstöðukonu þar sem sungnir eru Vindáshlíðarsöngvar og stelpurnar fá trúarlega og menningarlega fræðslu. Þá er skýrt tekið fram við stelpurnar að þó starfsmenn KFUM og KFUK sér kristnir þá séu allar auðvitað hjartanlega velkomnir í Vindáshlíð, hvort sem þær iðka önnur trúarbrögð eða séu trúlausar. Hver og ein tekur þátt í því sem henni líður vel með og það er grundvallarregla að við virðum allar hvora aðra.
Íþrótta- og brennókeppnir héldu áfram fram að hádegismat en stelpurnar fengu plokkfisk og rúgbrauð í matinn. Eftir mat undirbjuggu foringjar hermannaleik sem margar stúlkur í flokknum höfðu beðið óþreyjufullar eftir. Foringjar klæddu sig upp sem hermenn og eltu stelpurnar um svæðið og settu þær í fangelsi. Stúlkurnar reyndu að finna vísbendingar til að komast á griðarstað.
Við buðum stelpurnar velkomnar í annars konar kvöldmat síðar um kvöldið. Þær drógu miða á leiðinni inní matsal og var úthlutað land í heiminum. Svo settust þær í matsalinn með samlöndum sínum og fengu mat að borða sem við tengdum við landið. Tvær stelpur drógu t.d. Kanada, sátu saman við borð og kertaljós í miðjum salnum með tvo einkaþjóna. Þær fengu svo mikið að borða að þær gátu ekki klárað matinn sinn. Við förum stundum í þennan leik með eldri hópum til að vekja stelpurnar til umhugsunar um misskiptingu auðs í heiminum. Allar fengu að lokum nóg að borða 😉
Þegar leið á kvöldið hélt hópurinn uppí kirkjuna okkar, Hallgrímskirkju, þar sem Harpa foringi sagði stelpunum góða sögu fyrir svefninn og við sungum saman. Á leiðinni til baka komu foringjar stelpunum á óvart í jólapeysum, höfðu skreytt tré og kvöldvökusalinn og sýndu jólahelgileikinn undir söng Siggu Beinteins (bara upptaka, hún mætti ekki á staðinn, kannski næst). Svo fengu allar kvöldhressingu, kakó, kex og ávexti áður en bænakonur komu sínum herbergjum í ró.
Ég minni á myndir úr flokknum á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714736712698
Einnig má fylgja Vindáshlíð á Instagram og fylgjast með flokknum þar.
Við minnum á símatíma alla daga milli 11:30 og 12.
Hlýjar kveðjur úr Kjósinni,
Kristín forstöðukona