Í gærmorgun voru stelpurnar vaktar við “Hæ hó og jibbí jei – Það er kominn 17. júní!”. Allir foringjar voru klæddir í blátt og búnir að skipuleggja flotta þjóðhátíðardagskrá. Dagurinn hófst þó á hefðbundinn hátt; morgunmatur, fánahylling og morgunstund með forstöðukonu þar sem við ræddum mikilvægi þess að vera góð hvort við annað og sýna kærleika í verki. Við lásum saman nokkur vers úr biblíunni tengd því og sungum söngva. Eftir íþróttakeppnir og hádegismat var skrúðganga um svæðið þar sem fjallkona birtist stelpunum í fjallshlíð og flutti ljóð. Þegar skrúðgangan snéri aftur upp að aðalbyggingunni voru starfsmenn búnir að undirbúa óvænta 17. júní gleði fyrir framan húsið. Það var búið að blása upp hoppukastala, búa til vatnsrennibraut og það leið ekki á löngu fyrr en vatnsstríð braust út í sólinni. Stelpurnar fengu þjóðhátíðarköku í kaffinu og ég vil benda á að það fer enn fram kosning á Facebook síðu KFUM og KFUK hvort Vatnaskógur eða Vindáshlíð hafi búið til flottari köku í ár. Við hvetjum alla til að taka þátt!

Fram að kvöldmat héldu stelpur áfram að leika sér úti, taka þátt í íþróttakeppnum og margar fóru í sturtu eftir allan hamaganginn. Á kvöldvöku var hins vegar haldið niður í íþróttahús þar sem stelpurnar fengu að reyna á sköpunargleðina og herbergin unnu saman að hanna föt úr svörtum ruslapoka, klósettpappírsrúllu, garni og blómum af svæðinu. Alls konar flottar útkomur urðu og í lokin var haldin tískusýning. Kvöldkaffi, hugleiðing í setustofu og söngur eins og öll kvöld en þegar allar stelpur voru komnar inní herbergi og biðu eftir bænakonum heyrðist aftur “Hæ hó jibbí jei – það er komið náttfatapartí!”. Foringjarnir voru komnir í náttföt, málaðar í framan, slóu í potta og pönnur og drógu stelpurnar dansandi með sér inní matsal. Það var vægast sagt rífandi stemming í húsinu og sungið og trallað inní nóttina. Að loknu náttfatapartíi fylgdu bænakonur stelpunum inní herbergi og áttu með þeim smá rólegu stund áður en stúlkurnar sofnuðu sælar á koddanum sínum.

 

Ég minni áfram á símatíma alla daga milli 11:30 og 12 í síma 566-7044. Við höldum áfram að setja myndir inná Flickr: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714736712698 og svo er gaman að fylgjast með á Instagram og Facebook.

Rútan kemur aftur í bæinn á laugardag um kl 16. Það er mikilvægt að láta vita ef stelpur verðar sóttar upp í Vindáshlíð.

Kærar kveðjur úr Kjós,
Kristín forstöðukona