Í gær var Disney dagur og foringjarnir tóku á sig ný hlutverk úr heimi Disney. Það mátti sjá bregða fyrir Bangsimon, froskinum í “Prinsessan og froskurinn”, Mínu mús, Lísu í Undralandi og fleiri félögum. Í hádegismatnum mættu meira að segja Ryan og Sharpay úr “High school musical” og tóku lagið. Nokkrir hefðbundnir dagskráliðir s.s. fánahyling, morgunstund með forstöðukonu og brennóleikir héldu velli en óvæntar uppákomur áttu sér líka stað. Fyrir kaffi var Vindáshlíð t.d. breytt í ævintýrahús og stelpurnar fóru í hópum með bundið fyrir augun óvenjulega leið í gegnum húsið. Á leiðinni hittu þær karaktera eins og Öskubusku og Aríel úr “Litlu hafmeyjunni”, hjálpuðu þeim og leystu þrautir.

Eftir kaffi fór fram undanúrslitaleikur í brennó en það fer smám saman að skýrast hvaða herbergi hlýtur brennóbikarinn þessa vikuna. Stelpurnar borðuðu fisk, kartöflur, salat og kokteilsósu af bestu lyst í kvöldmatinn en eftir það var “Vindáshlíð got talent” undirbúið. Við starfsfólkið vorum orðlausar yfir hæfileikum stúlknanna sem tóku þátt í gærkvöldi. Nokkrar sungu, margar bjuggu til leikrit, aðrar fundu upp sniðuga leiki og ein leysti úr Rubik’s kubbi á mettíma. Það var æðisleg stemning og stelpurnar í salnum veittu öllum þáttakendum mikinn stuðning.

Dagurinn endaði svo á kvöldkaffi, hugleiðingu og söngstund í setustofunni áður en bænakonur komu herbergjunum sínum í ró. Enn einn góður dagur að baki.

Við minnum áfram á myndir úr flokknum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714736712698

Svo getur verið gaman að fylgjast með á Facebook og Instagram. 😊

 

Veisludagur í Vindáshlíð er í dag en rútan kemur í bæinn á morgun, laugardag rétt um kl 16.

Mikilvægt er að hringja í síma 566-7044 og láta vita ef stelpur verða sóttar upp í Vindáshlíð.

 

Við sendum hlýjar kveðjur í bæinn.

Kristín forstöðukona