Sæl kæru foreldrar og forráðamenn

Hingað mættu rúmlega 80 stelpur í gær, glaðar, spenntar og tilbúnar í að upplifa frábæra viku í Vindáshlíð með enn frábærari foringjum. Fyrst var auðvitað skipt í herbergi og farið yfir allar reglur. Stelpurnar fengu að sjá og hitta bænakonurnar sínar sem vakti mikla gleði. Í hádegismat var kjúlli en það var kakan í kafftímanum sem sló í gegn þennan daginn. Skyr og brauð í kvöldmat og ávextir í kvöldhressingu. Kvöldvakan var haldin í íþróttahúsinu, til að hrista hópinn aðeins saman fyrir komandi viku, leikir og söngvar auk almennrar gleði. Eftir kvöldkaffi var svo hugleiðing og þá var farið  að síga þreyta á ansi margar snúllur. Þær sem vildu, fengu að bursta tennur í læknum en hinar græjuðu sig bara inni, hátta, pissa, bursta áður en bænakonurnar komu á herbergin til að fara með þeim yfir daginn og koma þeim í ró. Nokkrar fengu smá heimþrá og þurftu extra knúsa og uppörvun en á endanum voru allir sofnaðir upp úr miðnætti. Það átti að vekja kl 9.00 en það voru mjög margar vaknaðar mun fyrr, en það gekk ágætlega að leyfa þeim að sofa áfram sem vildu það. Síðan var morgunmatur, fánahylling og Biblíulestur að vanda og auðvitað eru brennó og íþróttakeppnirnar á sínum stað. Öll herbergi eru búin að fá að keppa allavega einu sinni í brennó og það er búið að taka þátt í broskeppni, stigahlaupi, plankakeppni og fl. Núna eru stelpurnar að undirbúa sig fyrir göngu og útileiki sem farið verður í kl 14.00 – myndirnar eru að hlaðast inn hjá okkur, endilega fylgist með 🙂

bestu kveðjur í Hlíðinni, Hanna Lára forstöðukona.