Við komuna í Vindáshlíð fóru stúlkurnar beint inn í matsal þar sem forstöðukonan fór með þeim yfir helstu umgengis og öryggisreglur staðarins ásamt fleiru nytsamlegu. Stúlkunum var síðan skipt niður í herbergi, byggt á því með hverjum þær óskuðu eftir að deila herbergi. Eftir hádegisverð var farið í Amazing Race leik sem gengur út á að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir í sameiningu. Að því loknu var boðið upp á köku með bleiku kremi í kaffitímanum sem féll mjög vel í kramið hjá æstum stelpunum. Brennókeppni, íþróttakeppni og innanhúskeppni voru kynntar og strax eftir kaffi voru fyrstu brennóleikirnir og fyrsta íþróttakeppnin keyrð af stað. Oft myndast mikill metnaður fyrir þessum keppnum og það verður spennandi að sjá hvort sú verði raunin með þennan hóp. Á milli þess sem stelpurnar tóku þátt í skipulögðum íþróttum léku þær sér ýmist úti, inni í herbergjunum sínum eða í setustofunni þar sem hægt var að gera vinabönd. Eftir kvöldmat var frjáls tími fram að kvöldvöku, þar sem farið var í skemmtilega samhristings útileiki í góða veðrinu. Svo fóru stelpurnar að laut þar sem var búið að kveikja lítinn varðeld. Þar var boðið upp á kvöldkaffi og flutt hugleiðing um það að dæma fólk ekki út frá útliti, stuttum kynnum, eða slúðri eins og Jesús hafði tileinkað sér. Eftir varðeldinn voru stelpurnar sendar að bursta tennurnar, inni eða í læknum. Hvert herbergi fékk svo miða með þremur staðreyndum um einhverja af foringjunum. Miðarnir voru fyrir „bænakonuleit“ þar sem þær máttu koma tvær og tvær inn í setustofu til foringjanna og spyrja einn foringja að fyrstu spurningunni á miðanum. Ef foringinn svaraði játandi máttu stelpurnar spyrja næstu spurningu. Ef þær fengu þrjú jákvæð svör var bænakonan fundin. Ef foringinn svaraði hinsvegar neitandi voru stelpurnar sendar fram og næstu tveimur boðið inn. Þetta tók góðan tíma og það tók einnig góðan tíma að koma öllum í ró, enda hafði spenningurinn verið mikill. Heilt yfir gekk dagurinn vel og okkur hlakkar til að kynnast stelpunum betur næstu daga.