Stelpurnar voru vaktar kl 9 við lag úr Mamma mia og þær boðnar velkomnar til Grikklands. Í morgunmatnum var tilkynnt að þær væru komnar á Hótel Vindáshlíð í Grikklandi, settur var á svið smá drama-leikþáttur og tilheyrandi dansatriði við lag úr Mamma Mia sýnt (slík atriði voru svo tekin við tækifæri út daginn). Eftir morgunmat fóru stelpurnar á fánahyllingu og í kjölfarið á Biblíulestur þar sem þær lærðu um nokkur grundvallaratriði kristinnar trúar. Að Biblíulestri loknum var frjáls tími þar sem boðið var upp á íþróttakeppni, brennóleiki, vinabönd ofl. Í hádegismat var boðið upp á pasta með kjúkling og salati. Eftir mat var frjáls tími til kl. 14, þá ómaði bjallan og hermannaleikurinn hófst. Það má segja að hermannaleikurinn sé eltingaleikur með boðskap því honum er ætlað að fá stúlkurnar til að setja sig í spor fólks sem er annaðhvort á flótta eða býr við stríðsástand og ógn. Í upphafi leiks var þeim sögð dæmigerð saga um 12 ára stúlku sem býr við svona ástand af „henni sjálfri“. Í leiknum eru foringjarnir svo í hlutverki hermanna sem eru komnir til að hertaka stúlkurnar, ógna þeim og skelfa. Foringjarnir taka þessu hlutverki sínu mjög alvarlega, þær eru klæddar í dökk föt og með „stríðsmálningu“ og elta stelpurnar uppi. Ef stelpunum er náð eru þær leiddar í fangabúðir (ekki eins slæmt og það hljómar samt) og ef þær eru stilltar þar er þeim sleppt lausum. Annars er markmiðið að finna tvær vísbendingar í skóginum sem leiða þær á „griðarstað“. Þó svo að skilaboðin séu alvarleg þá er gamanið haft í fyrirrúmi og þær stelpur sem hafa komið áður í ævintýraflokk hafa spurt um leikinn síðan dvölin hófst. Einróma samþykki fékkst svo seinna um kvöldið fyrir því að leikurinn hafi verið skemmtilegur og hafi heppnast vel þó svo að nokkrar stelpur hafi kosið að sitja hjá. Eftir hermannaleikinn beið þeirra ljúffeng möndlukaka og kanilsnúðar. Þá var enn á ný boðið upp á brennóleiki, íþróttakeppni og vinabönd. Í kvöldmat var boðið upp á nokkurskonar hamborgara, þar sem hakk var notað í stað hamborgarans sjálfs. Á kvöldvöku var hæfileikasýning þar sem stúlkurnar fengu að láta ljós sitt skína. Að kvöldvöku lokinni var boðið upp á ávexti og í framhaldinu haldin hugleiðing um bænina „Faðir vor“ og um bæn almennt. Um kvöldið var náttfatapartý haldið gleðilegt og höfðu stelpurnar gaman að.