Í dag var Harry Potter dagur, foringjar í búningum og tilheyrandi skraut á veggjum. Morgunmaturinn var að sjálfsögðu með Harry Potter ívafi og stelpurnar spenntar fyrir deginum. Á Biblíulestri lærðu þær um Biblíuna og hvernig á að fletta upp í henni. Að Biblíulestri loknum var frjáls tími þar sem boðið var upp á hinar sívinsælu íþróttakeppnir, brennóleiki, vinabönd ofl. Í hádegismat var lasagna og eftir mat fóru steplurnar í Harry Potter leikinn þar sem þeim var skipt upp í heimavistirnar fjórar: Gryffindor, Slytherin, Hufflepuff og Ravenclaw. Í leiknum heimsóttu stelpurnar fimm mismunandi stöðvar þar sem þær lærðu t.d. að galdra. Eftir leikinn lét bakarameistari Vindáshlíðar ljós sitt skína með dýrindis bananabrauði og súkkulaðibitakökum. Þá var enn á ný komið að íþróttum, brennó, vinaböndum og frjálsum tíma sem stelpurnar nýttu ýmist úti í læk, í hoppukastalanum, í skóginum, í íþróttahúsinu eða inni í Vindáshlíð. Í kvöldmatinn var mjög góð kjötsúpa og seinna um kvöldið fóru stelpurnar allar niður í íþróttahús og bjuggu til skólabúning úr ruslapokum og fleiru (Smá breyting á dagskrárlið sem þær fá yfirleitt að föndra kjóla). Þegar skólabúningarnir voru klárir var matsalnum breytt í kaffihús og stelpunum boðið upp á heitt eplapæ og þeim þjónað til borðs. Á hugleiðingu heyrðu þær um mikilvægi þess að passa upp á orðin sín þar sem þau geta skilið eftir sár hjá þeim sem við tekur.