Í gær var veisludagur. Stelpurnar byrjuðu daginn á morgunmat, fóru svo upp að fána og síðan niður í Bilíulestur. Á Biblíulestri heyrðu þær um mikilvægi fyrigefningar. Úrslitaleikur brennókeppninnar var haldinn við mikinn fögnuð og boðið var upp á íþróttakeppni. Eftir hádegismat fóru stelpurnar í leik sem heitir útilegumaðurinn þar sem þær áttu að finna foringja í flippuðum búningum og leysa hjá þeim þrautir. Tveir útilegumenn voru þó á hlaupum á eftir stúlkunum og ef þeim var náð voru þær færðar í fangabúðir þar sem þær þuftu að svara gátum, og ein þraut sem þær höfðu þegar náð var strokuð út. Markmiðið var að ná að leysa allar þrautirnar. Í kaffitímanum bauð bakarameistarinn upp á marglitaða köku sem rann ljúft niður hjá stelpunum. Eftir kaffi var vinagangur þar sem hvert herbergi mátti bjóða hinum stúlkunum upp á eitthvað vinalegt, t.d. nudd, hárgreiðslu eða leik. Kl. 17:30 var stúlknahópurinn sendur upp í kirkju þar sem þær sungu nokkur vel valin lög. Að söngnum loknum tókum við niður fánann og „vefðuðum mjúka, dýra dúka“ á leiðinni niður í Vindáshlíð en það er gömul hefð sem hefur haldist í gegnum árin. Að því loknu voru herbergjamyndatökur og svo veislukvöldverður. Á meðan stúlkurnar gæddu sér á pizzu voru veittar viðurkenningar fyrir hitt og þetta, t.d. brennómeistara, íþróttadrottningu, íþróttaviðurkenningar, innanhúskeppni og hæfileikakeppni. Um kvöldið var svo veislukvöldvaka en hún var í umsjón foringjanna sem tóku ýmis skemmtileg leikrit. Að kvöldvöku lokinni var hugleiðing í setustofinni en þar heyrðu stúlkurnar um mikilvægi þess að forgangsraða rétt í lífinu.