Veðrið lék svo sannarlega við okkur á fyrsta degi 5. flokks Vindáshlíðar í dag.

70 stúlkur á aldrinum 9-11 ára mættu í Hlíðina í morgun og komu sér fyrir í 6-8 manna herbergjum. Meirihluti flokksins eru að koma í Vindáshlíð í fyrsta skipti svo við tókum okkur góðan tíma í að kynna okkur nærumhverfið og öll þau ævintýri sem staðurinn hefur uppá að bjóða. Eftir dýrindis hádegisverð skelltum við okkur í ratleik, þar sem stelpurnar héldu áfram að kanna svæðið á meðan þær svöruðu nokkrum laufléttum og skemmtilegum spurningum.

Eftir að hafa gætt sér á súkkulaðiköku í kaffitímanum kepptu svo öll herbergi í brennó og margar stúlkur tóku þátt í íþróttakeppni dagsins, sem var húshlaup. Í húshlaupi er hlaupið hringinn í kringum svefnskálann og tekinn er tíminn. Sú stúlka sem hleypur hraðast sigrar keppnina. Á hverjum degi eru háðar nýjar íþróttakeppnir og er frjáls þátttaka í þær allar. Reynt er að hafa keppnirnar fjölbreyttar til að stúlkur með mismunandi hæfileika geti fengið að skína á mismunandi sviðum.

Kvöldinu vörðum við svo útá grasi í hópleikjum, fengum okkur svo kvöldkaffi, og söfnuðumst saman í rólega kvöldstund. Þar heyrðum við söguna um froskinn sem gat hið ómögulega því hann var heyrnalaus og heyrði því ekki allar neikvæðu raddirnar sem stöðugt sögðu honum að hann gæti ekki. Upp frá því varð smávegis umræða um mikilvægi þess að byggja upp okkur sjálfar og fólkið í kringum okkur, frekar en að draga okkur og aðra niður. Stúlkurnar enduðu svo kvöldið eins og önnur kvöld, með stund inná herbergi með herbergisfélögum sínum og bænakonunni sinni. Það voru svo þreyttar og sælar stúlkur sem lögðust á koddann að þeirri samverustund lokinni, tilbúnar að safna orku fyrir annan ævintýradag á morgun.

Útlit er fyrir að sólin ætli að leika við okkur alla vikuna, svo það er mikil áhersla lögð á að stelpurnar séu duglegar að nota sólarvörn og drekka mikið af vatni. Það hefur gengið mjög vel hingað til.

Kveðja,
Tinna Rós – forstöðukona