Flottur hópur af 80 stúlkum kom upp í Vindáshlíð í gær í glampandi sól og blíðu. Mikil spenna var í hópnum og allar tilbúnar að taka þátt í ævintýraflokk þar sem dagskráin er stútfull af óvæntum uppákomum og spennandi leikjum. Flestar stelpurnar í flokknum hafa komið áður í Vindáshlíð en við tókum góðan tíma fyrir hádegismat að raða í herbergi, sýna nýjum stelpum staðinn og fara yfir öryggisatriði og reglur. Þær fengu svo grjónagraut og lifrarpylsu í hádegismat sem þær borðuðu af bestu lyst. Eftir mat var svo haldið í  óvenjulegan ratleik sem við köllum “Amazing Race” og stelpurnar þutu um allt svæðið að leysa þrautir og safna stigum. Það var gætt sér á köku í kaffitímanum og í framhaldi af því hófust ýmsir hefðbundnir liðir í dagskrá Vindáshlíðar svo sem brennó- og íþróttakeppnir og vinabandagerð. Eftir kvöldmat fór hópurinn í leiki með foringjum úti í góða veðrinu en kom svo inn í kvöldkaffi og rólega söngstund og hugleiðingu í setustofunni. Mikil eftivænting var að finna út hvaða bænakonur herbergin fengu og áður en þær fóru að sofa var smá leikur þar sem stelpurnar þurftu að giska eftir vísbendingum hver var þeirra foringi. Það gekk nokkuð brösulega fyrir mörg herbergin en það var mikið hlegið og fagnað þegar loksins tókst að giska á rétt. Það getur verið erfitt að gista fyrstu nóttina sína í sumarbúðum en stelpurnar stóðu sig eins og hetjur og voru duglegar að láta vita ef þær þurftu spjall eða smá hvatningu. Ekki leið á löngu fyrr en það var komin ró í húsið og allar steinsofnaðar.

Þetta er yndislegur hópur hér í ævintýraflokki. Fjörugar, skemmtilegar og flottar stelpur sem við hlökkum til að kynnast betur.

Ég minni á að foreldrar og forráðamenn geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma  566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum.

Við byrjum í dag að setja inn myndir á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/with/72157714736712698

Hlýjar kveðjur,

Kristín forstöðukona