Dvölin í Ævintýraflokk gekk áfram vel í gær. Á öðrum degi var hópurinn vakinn upp við Harry Potter tónlist, foringjarnir voru klæddir upp sem karakterar úr bókunum og það var búið að umbreyta matsalnum í Hogwarts-matsalinn. Að öðru leiti var dagskráin nokkuð hefðbundin fram að hádegi. Eftir morgunmat var fánahylling sem er gömul og góð hefði hér í Hlíðinni og svo var haldið niðrí kvöldvökusal þar sem var morgunstund með fosrtöðukonu. Í framhaldi af því héldu brennó- og íþróttakeppnir áfram og svo var líka kósístemning á setustofunni. Eftir pítu í hádegismatinn var komið að aðalnúmeri dagsins, hinum sívinsæla Harry Potter leik. Stelpurnar fóru þá í hópum um allt svæðið, þurftu að halda hópinn, leysa ýmsar þrautir, hitta Harry Potter persónur sem urðu á vegi þeirra og fá hjá þeim verkefni og halda sig í leiðinni frá vitsugum. Eftir kaffi voru áfram íþróttakeppnir, frjáls tími og hægt að fara í sturtu. Á kvöldvökunni var farið í spurningaleikinn Éttu Pétur, svo var kósí kaffihúsakvöld og stutt hugleiðing upp í kirkjunni okkar Hallgrímskirkju. Þar sagði María foringi stelpunum smá sögu um hrísgrjón en tilgangur sögunnar var að minna þær á hversu dýrmætar þær eru, hver og ein. Við erum allar ólíkar, hver með sína styrkleika en allar jafn mikilvægar og flottar. Við sungum nokkur falleg lög saman og svo fengu þær tíma til að hátta og tannsbursta sig í læknum í blíðunni. Mjög góður dagur og stelpurnar voru ekkert smá sælar þegar þær lögðust á koddann.

Ég minni aftur á símatíma alla daga milli 11:30 og 12 í síma 566-7044.

Við afsökum hversu seint myndir úr flokknum eru að berast við höfum verið að kljást við smá tæknilega örðuleika en það ættu að fara að birtast myndir á eftirfarandi slóð hvað úr hverju: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/with/72157714736712698

Bestu kveðjur,
Kristín forstöðukona