Fjörið heldur áfram. Á miðvikudag voru jólin haldin hátíðleg í Vindáshlíð. Stelpurnar vöknuðu við jólatónlist og foringjarnir voru allir í jólapeysum eða annari jóla múnderingu. Á miðvikudagsmorgun höfðu stelpurnar líka gist þrjár nætur í Vindáshlíð og máttu þá formlega kalla sig hlíðarmeyjar. Því var fagnað með spari morgunmat þar sem skál af cocoa puffs var í boði. Mjög jólalegt og kósí. Í morgunstund sagði forstöðukona stelpunum sagt frá fæðingu Jesú og jólahelgileikurinn var lesin og leikinn. Eftir skemmtilegan dag, með íþróttakeppnum, brennó, hermannaleik og fleira spennandi var stelpunum boðið í bíó niðrí kvöldvökusal þar sem horft var saman á jólamynd.

Á fimmtudag var ólympíu þemadagur. Hvert herbergi vaknaði með fána á hurðinni sem var þeirra land yfir daginn. Eftir hádegismat voru svo haldnir ólympíuleikar þar sem var keppt í ýmsum skringilegum íþróttagreinum og síðar um daginn voru verðlaunapeningar gefnir fyrir árangur. Eftir kvöldmat var haldið “Vindáshlíð got Talent” þar sem fjölmargar stúlkur stigu á stokk og sýndu listir sínar. Ekkert smá hæfileikaríkar og flottar stelpur í þessum flokk!

Við höfum verið að kenna stelpunum að hver og ein þeirra er fullkomin alveg eins og hún er sköpuð. Við höfum minnt þær á styrkleika sína, allir eru góðir í einhverju en enginn einn er góður í öllu.

Veðrið er áfram gott og við njótum þess að vera umvafin náttúru og fegurð. Lúsmýið hefur aðeins verið að láta sjá sig, nokkrar hafa verið bitnar illa en flestar bara smá. Stelpurnar standa sig samt eins og hetjur og láta þetta ekkert stoppa sig í að hafa gaman.

Ég minni á að rútan kemur í bæinn á morgun (laugardag) rétt fyrir kl 16 á Holtaveg 28.

Ef stelpur verða sóttar og ekki er búið að láta vita skal hafa samband sem allra fyrst í síma 566-7044.

 

Við hlökkum til að sjá ykkur 🙂

Hlýjar kveðjur úr Hlíðinni,
Kristín forstöðukona