Þá er unglingaflokki lokið, ég vona að stelpurnar hafi verið ánægðar með flokkinn.
Í fyrradag var farið í leik sem heitir Biblíusmyglarar í útiverunni. Þá eiga þær að safna biblíum (sem eru í raun steinar sem eru málaðir) í skóginum og koma þeim í neðanjarðarkirkju, en á sama tíma eru foringjar að reyna að ná þeim. Mjög skemmtilegur leikur sem vonandi vekur þær til umhugsunar um mikilvægi þess að hafa trúfrelsi. Á kvöldvökunni var spurningakeppnin Éttu Pétur. Eftir hugleiðingu máttu stelpurnar velja um að fara í íþróttahúsið í brennó eða á bíókvöld.
Í gær var veisludagur, hann er alltaf haldin hátíðlegur. Eftir morgunmat fórum við á biblíulestur í kirkjunni okkar. Síðan var spilaður úrslitaleikur í brennó, hann var æsispennandi en Grenihlíð stóð uppi sem sigurvegari. Eftir hádegismat var farið í leik sem heitir útilegumaðurinn. Eftir kaffi gerðu allar sig fína fyrir veislukvöld og á sama tíma var það sem við köllum vinagang. Þá bjóða herbergin upp á það sem þau vilja, meðal þess sem var í boði í gær var nudd, fléttur, naglalakk og láta teikna af sér mynd.
Veislukvölddagskrá hófst á slaginu 18:00. Eins og hefur verið gert í Vindáshlíð til fjölda ára var byrjað á því að vefa mjúka dúka. Síðan voru teknar myndir af hverju herbergi með bænakonu. Í kvöldmat var pitsa. Viðurkenningar voru veittar fyrir þær fjölmörgu keppnir sem fóru fram í flokknum. Veislukvöldvaka var í höndum foringja, ég vona að allir hafi skemmt sér vel þar.
Ég er afskaplega ánægð með þennan stutta en yndislega unglingaflokk. Frábærar stelpur, ég vona að þær hafi skemmt sér jafn vel og við starfsfólkið.
Kveðja Pálína