Í gær komu 80 stelpur í Vindáshlíð. Margar eru að koma í fyrsta sinn hingað en sumar hafa komið áður.

Eftir að stelpurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjum í gær var hádegismatur. Í matinn var pasta. Eftir hádegismat var ratleikur þar sem stelpurnar kynntust svæðinu betur og leystu þrautir. Í kaffinu var boðið upp á nýbakaða köku. Eftir kaffi hófst brennókeppnin. Herbergin munu keppa sín á milli þangað til að eitt herbergi stendur uppi sem brennómeistarar flokksins. Einnig hófst íþróttakeppnin, í gær var keppt í stigakeppni og minniskeppni. Í kvöldmat var kjúklingur, franskar kartöflur og salat.

Á kvöldvöku voru þrjú herbergi með skemmtiatriði sem þær undirbjuggu eftir kaffi. Þær sýndu bæði leikrit og stjórnuðu leikjum. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og loks hugleiðing. Bænakonur enduðu svo daginn með hverju herbergi.

Í dag vöknuðum við klukkan níu. Eftir morgunmat var fánanum flaggað og svo haldið á Biblíulestur þar sem stelpurnar lærðu að fletta upp í Biblíunni. Eftir Biblíulestur og fram að hádegismat kepptu stelpurnar í brennó, íþróttum og áttu frjálsan tíma. Í hádegismat var skyr. Þar sem veðrið lék ekki beint við okkur eftir hádegi ákváðum við að hafa útiveruna inni í íþróttahúsi. Þar voru haldnir Vindáshlíðarleikar og keppt í ýmsum þrautum. Í kaffitímanum var eins og venjulega boðið upp á nýbakaða köku, að þessu sinni var það möndlukaka. Síðan hélt brennókeppnin áfram eftir kaffi og stelpurnar fengu líka frjálsan tíma. Í kvöldmat voru tortillur með kjúklingi og grænmeti. Á kvöldvöku voru fjögur herbergi með skemmtiatriði. Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu bjuggust stelpurnar við því að bænakonan þeirra kæmi eins og venjulega, svo var þó ekki því í kvöld var náttfatapartý!

Við fórum því aðeins seinna að sofa en venjulega og ætlum að sofa út á morgun.

Biðjum að heilsa heim og ég minni á instagram Vindáshlíðar (@vindashlid), þar getið þið séð smá frá deginum í story.

Kveðja Pálína forstöðukona.