Í gær sváfum við aðeins lengur en venjulega útaf náttfatapartýinu sem var kvöldið áður, við vöknuðum því hálf 10. Þegar stelpurnar höfðu burstað tennur og klætt sig fóru þær í morgunmat og þaðan upp að fána. Svo var biblíulestur þar sem við ræddum um bænina og bænasvör. Það er gaman hvað þær eru duglegar að tjá sig um það sem við ræðum. Fram að hádegismat var frjáls tími. Keppt var í íþróttakeppnum og brennó. Í hádegismat var fiskur. Um tvöleitið var lagt af stað í gönguferð niður í réttir. Í réttunum var farið í leiki og svo var haldið heim. Veðrið var tillitsamt og það stytti upp akkúrat meðan stelpurnar voru í gönguferðinni. Í kaffitímanum var boðið upp á köku og bananabrauð. Í kvöldmat var sveppasúpa. Kvölddagskráin hófst með kvöldvöku þar sem allir skemmtu sér vel og stelpurnar sýndu fjölbreytt og skemmtileg skemmtiatriði. Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu enduðu bænakonur daginn með stelpunum eins og venjulega.
Stúlkurnar vöknuðu klukkan níu í dag, veisludag. Síðasti dagurinn í hverjum flokki kallast veisludagur. Framan að degi var hefðbundin dagskrá. Á biblíulestri töluðum við um góða hirðinn. Fyrir hádegismat var úrslitaleikur í brennókeppninni og stóð Skógarhlíð uppi sem sigurvegari. Í hádegismat var plokkfiskur. Í útiverunni undirbjuggu stelpurnar kirkjustund í fjórum hópum; söng, leiklistar, bæna og skreytinga. Í kaffitímanum var boðið upp á súkkulaðibitakökur. Eftir kaffi var vinagangur þar sem öll herbergi buðu upp á einhverskonar þjónustu og flökkuðu stúlkurnar á milli herbergja og skoðuðu hvað var í boði á hverjum stað. Á sama tíma undirbjuggu allir sig fyrir veislukvöld. Klukkan fimm hófst veislukvöldsdagskrá með kirkjustund. Þar sýndu hóparnir afrakstur vinnu sinnar og stelpurnar heyrðu söguna af því hvernig kirkjan okkar kom í Vindáshlíð.
Síðan var herbergjamyndataka, þar sem tekin var mynd af hverju herbergi ásamt bænakonu. Svo var haldið inn í matsal og allir borðuðu pitsu af bestu lyst. Hápunktur kvöldsins var líklega hin sívinsæla foringjakvöldvaka, en þar stíga foringjar á stokk og leika leikrit. Þegar kvöldvökunni lauk héldu stelpurnar á hugleiðingu. Þar fengu þær íspinna í kvöldkaffi og hlustuðu á hugleiðingu áður en bænakonur enduðu daginn í hverju herbergi.
Við þökkum fyrir frábæran flokk og sjáumst á Holtavegi á morgun klukkan 16:00.
Þið getið séð frá deginum í story á instagram @vindashlid
Bestu kveðjur Pálína