Fyrsti dagur fyrsta Jólaflokks Vindáshlíðar gekk vonum framar. Það má með sanni segja að jólin séu yfir öllu hér í snævi þakktri Vindáshlíð, þar sem jólalögin óma eftir göngunum og 47 stúlkur á aldrinum 9-11 ára eru að njóta hverrar mínútu!

Hèr er öllum Covid-reglum fylgt til hins ítrasta þó búið sé að semja um það meðal hópsins að orðið “Covid” þekkist ekki í Vindáshlíð, og hver sá sem óvart nefnir það þarf að gjalda fyrir með fimm hoppum á öðrum fæti. Hópnum hefur verið skipt í tvö sóttvarnarhólf, í samræmi við fyrirmæli landlæknis, og sprittið (eða jóladjúsinn eins og við köllum hann) er aldrei langt undan. Sóttvarnarhólfin hafa verið nefnd Malt og Appelsín og eru stelpurnar alltaf með sínu hólfi í tvískiptri dagskrá.

Strax eftir komu í gær fóru stelpurnar beint í það að jóla skreyta herbergin sín, og komu svo í kvöldmat. Eftir kvöldmat helltum við okkur í piparkökuhúsa-gerð þar sem herbergin unnu saman að því að smíða piprkökuhús og skreyta þau,

heldur betur glæsilega. Að því loknu spjölluðum við saman um tilgang jólanna og hvað sé eins eða mismunandi í því hvernig við höldum jól, og svo í því hvernig fólk heldur jól annarsstaðar. Stúlkurnar fengu svo tíma með bænakonunni sinni áður en lagst var til hvílu, bros á hverju andliti.

Allar gættu stelpurnar þess þó að setja skóinn sinn útí glugga áður en þær fóru að sofa. Heyrst hefur að jólasveinarnir búi ekki svo langt frá Vindáshlíð og séu líklegir til þess að skreppa yfir með smotterí í skó ef þeir vita til þess að hér sé börn að finna.

Nú er Hlíðin rólega að komast á fætur og hláturskríkir farnir að heyrast útúr herbergjunum. Hér eru allir til í nýjan dag sem verður gjörsamlega pakkaður af ævintýrum.

Kv. Tinna Rós, forstöðukona.