Þvílík helgi!
Við sendum þreyttar og sælar stelpur aftur til síns heima í dag eftir tvo sólarhringa í jólalandi Vindáshlíðar, þar sem veðrið sýndi sínar bestu hliðar og jólin voru haldin með pompi og prakt.

Aðfangadagur jólaflokksins fór framúr björtustu vonum, þar á meðal þökk sé fullkomnu jolaveðri þar sem allt var að drukkna í snjó og veðrið stillt og fallegt. Við hefðum ekki getað hannað þetta betur.

Það voru heldur betur kátar stelpur sem vöknuðu í gærmorgun og sáu að Stekkjastaur hafði skakkalast yfir fjallið með smá glaðning á meðan stelpurnar sváfu. Þar sem jólasveinarnir búa nálægt Hlíðinni eiga þeir það nefninlega til að koma við a þessum árstíma ef heyra gleðióm barna alla leið uppí fjallið. Það var staðan núna. Aðfangadagur byrjaði á ratleiknum “Leitin að Jesú” þar sem stelpurnar hittu Grýlu, Leppalúða, jólaköttinn, Maríu Mey, Ágústus keisara, Rúdolf og tvo jólasveina í leit sinni að Jesú. Enginn hópanna taldi sig hafa fundið Jesú, enda kom í ljós í lok leiks að hann var aldrei týndur. Þá ræddum við stelpurnar saman um það að Jesú væri alltaf hjá þeim og hvað það þýddi.

Að leik loknum var deginum varið í brennó og íþróttakeppnir, jólaföndur, og fullt af útiveru. Eins og áður segir var jörðin þakin fullkomnum jólasnjó  svo farið var í snjostríð, byggðir voru snjókarlar og allskonar fundnir voru alls kyns leikir í snjónum.

Klukkan 18 var kirkjuklukkunum hringt og stelpurnar komu saman í kirkjunni, í sínu fínasta pússi, þar sem haldin var jólamessa. Þar eftir skunduðum við í jólamat og þaðan á drekkhlaðna jólakvöldvöku þar sem foringjarnir skelltu sér í hin ýmsu gervi og skemmtu hópnum. Langur og skemmtilegur dagurinn endaði svo í kósý hugleiðingu inná bænaherbergi.

Giljagaur leit svo við í Hlíðinni í nótt og skildi eftir smá glaðning í öllum skóm sem búið var að stilla gaumgæfilega út í glugga. Deginum var svo varið í meira föndur og meiri útiveru áður en möndlugrauturinn var borðaður og lokastundin haldin. Þar var kveikt á fyrsta aðventukertinu og ræddum við saman um merkingu aðventunnar.

Velgengni fyrsta Jólaflokks var staðfest í ljómandi andlitum stelpnanna sem við skiluðum af okkur í dag. Allar þreyttar en sælar eftir mikla ævintýra helgi.

Við hlökkum allar til að hittast aftur,

Kv. Tinna Rós, forstöðukona.

(Fleiri myndir má finna á HTTPS://flic.kr/s/aHsmSsXMrn