Þjóðhátíðardagurinn sveik ekki hér í Hlíðinni fríðu. Stelpurnar voru vaktar með sautjánda-júní-laginu „Hæ hó, jibbí jey“, og hefur það ómað ótt og títt við hin ýmsu tækifæri i dag. Fáninn var dreginn að húni eins og vanalega, þó athöfnin hafi sannarlega þótt hátíðlegri á þessum merka degi. Biblíulestur dagsins tók svo fyrir boðorðin 10, og við ræddum saman um hvernig lög landsins okkar, Íslands, eigi mikið til rætur í kristin boð og gildi. Meðfram þeirri umræðu ræddum við lauslega sögu Íslands, landnám og kristnitöku.
Eftir hádegismat var smellt í alvöru Vindáshlíðar-skrúðgöngu sem endaði í kirkjunni þar sem fjallkonan okkar las upp stuttan texta fyrir viðstadda. Við tók svo ein alsherjar skemmtun þar sem hoppukastalanum var smellt upp, boðið var upp á andlitsmálingu og hvert herbergi hannaði sinn einkennisfána. Spákona gægðist einnig inní hugarheim stúlknanna, og leikið var í reipitogi, pokahlaupi, og fleiru. 

Hin árlega 17-júní kaka beið svo í matsalnum og allir gæddu sér á henni áður en haldið var af stað í brennó, íþróttakeppnir, föndur og vinabandagerð. Nu í kvöld var svo farið í vinsælasta eltingaleik Vindáshlíðar, Flóttann, en þar reyna stelpurnar að flýja úr Vindáshlíð og foringjar reyna að ná þeim og halda þeim hér. Hápunktur dagsins var þó líklega þegar stúlkunum var tilkynnt um að þær fengju extra langan tíma með bænakonunni sinni í dag, og að hún fengi að vera inni hjá þeim í klukkutíma til að enda daginn með þeim.

Gærdagurinn var ekki minna spennandi, og var hann lika frekar langur þar sem óvænt var skellt í náttfatapartý þegar stelpurnar héldu að deginum væri að ljúka. Endalaus ævintýrin í Vindáshlíð. Í gærdag var gengið niður í réttirnar sem eru hér hinumegin við veginn, og farið í réttarleik þar sem foringjar draga stúlkurnar í dálka. Á kvöldvökunni var „Vindáshlíð‘s Got Talent“ og fengu stelpurnar þar að sýna hina ýmsu hæfileika. Dómnefndin situr enn að störfum við að ákveða sigurvegarana, en von er á niðurstöðum annað kvöld, á veislukvöldi.

Flokkurinn gengur mjög vel og mikil stemning í stúlknahópnum. Við hlökkum mikið til seinustu tveggja dagana með þeim.

Tinna Rós
Forstöðukona