Síðasti dagurinn í Hlíðinni fríðu tók á móti okkur með grenjandi rigningu, en gleðin og hamingjan sveif þó yfir öllu. Hér eru 82 þreyttar stelpur að njóta síðustu klukkutímana í Kjósinni áður en þær koma heim – sem þær hafa nú nokkrar játað að þær séu spenntar fyrir líka.
Þegar þetta er ritað stendur yfir brennóleikur á milli brennómeistara flokksins, Hamrahlíðar, og foringjana, en sterk hefð er fyrir brennókeppninni í Vindáshlíð og stendur hún yfir alla vikuna, allar vikur. Eftir hádegismat tekur svo við pökkun og kveðjustund með bænakonum, áður en haldið er af stað í bæinn.
Veisludagurinn í gær sló heldur betur í gegn. Við byrjuðum daginn á biblíulestri um Gullnu regluna, herbergin kepptu svo sín á milli í „Vindáshlíð Top Model“ þar sem hvert herbergi hannaði einn kjól og haldin var
tískusýning. Vinagangurinn tók svo við eftir kaffi, þar sem stelpurnar buðu hvor annari uppá alls kyns stöðvar í herbergjunum sínum, og var þar meðal annars boðið uppá hárgreiðslu, nudd, naglalökkun og portrait-teikningar. Þegar allir voru orðnir fínir og sætir héldum við í kirkjuna þar sem við áttum stutta stund saman, sungum svo „vefa mjúka“ aftur niður í hús og héldum pizzaveislu og verðlaunaafhendingu fyrir hinar ýmsu keppnir sem hafa átt sér stað í vikunni. Foringjarnir enduðu svo kvöldið með hinni sívinsælu foringjakvöldvöku og kitluðu hláturtaugar stúlknanna allhressilega.
Það var erfitt að koma mjög spenntum stelpum í ró í gærkvöldi, en það tókst um síðir en mikil ánægja var með hálftíma langa útsofið sem allir fengu í morgun.
Flokkurinn hefur gengið með eindæmum vel. Stelpurnar sem hér hafa dvalið hafa verið til fyrirmyndar. Þær eru
duglegar að taka þátt í öllu sem í boði er, duglegar að gefa kyrrð og hljóð þegar óskað er eftir því, og yfir höfuð verið gjörsamlega frábærar. Margar hafa eignast nýjar vinkonur, og allar hafa bætt í þakkarkörfuna sína eftir dásamlega viku hér. Það er viðbúið að eitthvað verði um tár þegar allir kveðjast seinna í dag.
2. flokkur sumarsins 2021 þakkar fyrir sig!
Tinna Rós
Forstöðukona