Það var dásamlegur 20 manna stúlknahópur sem mætti hingað í Hlíðina upp úr hádegi í dag í Stubbaflokkinn okkar hér í Vindáshlíð. Það var greinilegt að spennan var mikil því að stelpurnar voru svo spenntar í rútunni á leiðinni upp í Hlíð. Þegar komið var upp í Hlíð þá var byrjað á því að fara yfir reglurnar á staðnum og raðað stúlkunum í herbergi. Þær stúlkur sem komu saman fengu að sjálfsögðu að vera saman í herbergi. Hvert herbergi fékk svo einnig sína bænakonu, en hvert og eitt herbergi fær sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir herberginu í gegnum flokkinn.

Næst var haldið í íþróttahúsið þar sem að farið var í hinn víðfræga leik brennibolta eða brennó sem spilaður er mikið hér í Vindáshlíð. Við fórum einnig í samhristingarleiki þar sem við tókum tíma í að kynnast hvor annari. Svo var haldið í kaffitíma þar sem boðið var upp á bananabrauð og sjónvarpsköku sem að stelpurnar voru mjög ánægðar með. Næst tók frjáls tími við þar sem að stelpurnar máttu taka þátt í íþróttakeppni, gera vinaarmbönd eða föndra í nýja og dásamlega föndurheerberginu okkar hér í Vindáshlíð. Einnig var aparólan og hoppukastalinn okkar í miklu uppáhaldi.

Í kvöldmat var grjónagrautur sem fékk góðar undirtektir og borðuðu stelpurnar vel og mikið af honum áður en haldið var á kvöldvöku kvöldins. Í kvöldvöku fórum við í Ólympíuleikana þar sem að hvert og eitt herbergi þurfti að vinna saman sem lið. Hvert herbergi fékk andlitsmálningu sem stóð fyrir lit herbergisins og flökkuðu þær svo á milli stöðva og leystu þrautir. Síðan var haldið í kvöldkaffi og loks hugleiðingu þar sem við lærðum um það hvað við erum allar dýrmætar og frábærar eins og við erum, það eru engir tveir eins og það er svo dásamlegt.

Þegar að stúlkurnar voru komnar í náttföt og voru á leið upp í rúm komu foringjarnir þeim að óvörum og sungu: „hæ hó jibbý jei og jibbý og jei það er komið náttfatapartý“. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með náttfatapartýið. Við dönsuðum uppi á borðum, fórum í leiki en svo kíktu líka nokkrir skemmtilegir gestir til okkar og glöddu stelpurnar, það var hvorki meira né minna en geimvera og spæjari. Þau trölluðu aðeins en gáfu svo stelpunum íspinna.

Það fóru því vel þreyttar en glaðar stelpur að sofa hér í Hlíðinni í kvöld.

Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma  566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að posta þar í story.

Við setjum einnig myndir frá flokkum á eftirfarandi slóð: Stubbaflokkur Myndir

Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona