Í dag vöknuðu stelpurnar eldsnemma og eldhressar enda er veisludagur í dag svo að spennan var mikil. Seinasti heili dagurinn okkar í Vindáshlíð er alltaf veisludagur og því var mikið um að vera í dag. Við byrjuðum á því að fá okkur morgunmat en eftir morgunmat var fánahylling sem er gömul og góð hefð hér í Vindáshlíð en svo var haldið inn í setuustofu á morgunstund með forstöðukonu. Í framhaldi af því var hin sívinsæla brennókeppni þar sem herbergin kepptust sín á milli þar sem að eitt herbergi myndi standa uppi sem brennómeistarar Stubbaflokks 2021. Herbergið sem stóð uppi sem sigurvegari var Hamrahlíð.

Í hádegismatinn voru Tortillas en svo fengu allar stelpurnar að setja á pizzurnar sínar sem að þær myndu svo borða í kvöldmatinn. Sólin skein á okkur í dag svo við ákváðum að henda okkur í göngutúr. Stúlkurnar báru á sig sólarvörn og fóru í göngufötin. Haldið var upp að brúðarslæðu sem er lækur hér rétt við Vindáshlíð þar sem stelpurnar fengu að vaða og haft gaman saman. Þegar að heim var komið var komin kaffitími þar sem stelpurnar fengu bollakökur og kanillengur sem þær voru mjög ánægðar með. Eftir kaffitíman fengu allar stelpurnar að hjálpa foringjunum við það að skreyta matsalinn fyrir veislukvöldið. En síðan var haldið í veislukvöldvöku undirbúning, en hvert og eitt herbergi og foringjar voru með atriði á kvöldvökunni.

Um klukkan hálf sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem framundan var. Við byrjuðum á að fara í kirkjuna þar sem að við áttum notalega stund saman. Við lærðum um það að bera virðingu fyrir náunganum og vera góð manneskja því þá líður manni svo miklu betur. Að messu lokinni var komið að veislukvöldmat þar sem að við fengum pizzurnar sem að við gerðum sjálfar fyrr um daginn. Veittar voru viðurkenningar fyrir brennómeistara, innanhúskeppni og auðvitað Ólympíuleikana. Næst tók veislukvöldvakan við þar sem að bæða foringjar og stelpur stigu á stokk. Þá var sko mikið hlegið. Í kvöldkaffi fengum við svo eplaköku og rjóma svona til að enda þennan frábæra veisludag. Allir foringjar og börn fóru svo saman út í læk að busta tennurnar.

Það voru því mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í kvöld eftir viðburðarríkan dag. Á morgun fer rútan frá Vindáshlíð kl 10:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 rétt fyrir klukkan 11:00.

Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur á bæði instagram Vindáshlíðar og myndir úr flokknum á eftirfarrandi slóð: Stubbaflokkur Myndir

Við í Vindáshlíð erum mjög þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum í Stubbaflokkinum hérna hjá okkur. Þær voru svo frábærar og æðislegar allar sem ein og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni.

Sjáumst á Holtavegi á morgun rétt fyrir 11:00 🙂

Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona