Heil og sæl kæru foreldrar og forráðamenn

Í morgun mættu stelpurnar ykkar í Hlíðina í miklu stuði og tilbúnar í spennandi ævintýraviku. Eftir hádegismatinn, sem var grjónagrautur þennan daginn, fóru stelpurnar í útiveru þar sem þær tóku þátt í stórskemmtilegum leik sem heitir Amazing race. Frábært að sjá og heyra þær hlaupa um mölina syngjandi og dansandi og leysandi þrautir út um allt. Í kaffitímanum fengu stelpurnar svo ljúffenga möndluköku.

Eftir kaffið  byrjuðu svo íþrótta- og brennókeppnir, en eins og margir vita eru þessar keppnir þær allra mikilvægustu (að mati margra) og stelpurnar komast í svakalegt keppnisskap. Einnig var boðið upp á föndur í föndurherberginu og vinabönd í setustofu.

Í kvöldmat var svo fiskur í raspi, kartöflur og salat. Eftir kvöldmat fóru stelpurnar í samhristingsleiki í íþróttahúsinu og komu svo inn í kvöldkaffi og hugleiðingu í setustofunni. Hugleiðingin fjallaði um kvíða og ræddum við aðeins boðskapinn ásamt því að syngja nokkur róleg lög í lok dagsins.

Eftir tannburstun í læknum fengu stelpurnar miða til að fara í bænakonuleit, þar sem þær þurftu að lesa staðreyndir og finna út með já/nei spurningum hver var þeirra bænakona 🙂

Frábær dagur á enda og stelpurnar komnar í ró með sinni bænakonu. Heilt yfir gekk dagurinn vel og okkur hlakkar til að kynnast stelpunum enn betur á næstu dögum 😉

 

-Marín Hrund forstöðukona