Jæja fyrsta nóttin yfirstaðin og stelpurnar sváfu eins og englar.
Í morgun voru þær vaktar með tónlist og þær boðnar velkomnar á Hótel Vindáshlíð. En í dag er sem sagt Mamma mia þema og í gegnum daginn verður leikin sápuópera í matartímunum sem þær fylgjast með starfsfólki hótel Vindáshlíðar í því drama sem fylgir hótellífinu í Grikklandi.
Í hádegismat var lasagne og þegar allir voru saddir og sælir hittust stelpurnar í setustofu þar sem leikreglur leiksins Flóttinn úr Vindáshlíð voru kynntar. Stuttu seinna mættu foringjarnir á gluggana með grænar bólur vegna foringjaveikinnar og markmið leiksins var að vera ekki fangaður í fangelsi heldur finna griðarstað með hjálp vísbendinga. Ótrúlega skemmtilegur leikur í sólinni. Smá rafmagnsleysi setti örstutt strik í reikninginn með kaffitímann en allt hafðist fyrir rest og stelpurnar fengu svo dýrindis jógúrtköku og kanillengjur í kaffinu.
Brennó og íþróttakeppnirnar héldu áfram fram að kvöldmat. Í kvöldmatinn var svo blómkálssúpa og brauð.
Í kvöldvökunni fóru stelpurnar í Viltu vinna milljón spurningakeppni og við enduðum svo kvöldið á kvöldkaffi og rólegri hugleiðingu þar sem var rætt um Æðruleysisbænina ásamt því að syngja nokkur róleg lög.
Frábær dagur á enda og á morgun bíður þeirra ótrúlega spennandi dagur og ég hlakka til að segja ykkur betur frá því á morgun 😀