Heil og sæl
Afsakið innilega fréttaleysið – en það er búið að vera mikið um að vera og rosalega gaman. Á mánudaginn komu rúmlega 80 stelpur í geggjuðu stuði með smá spennu og kvíða í mallakút um hvað þær væru nú búnar að koma sér út í næstu daga en það er búið að ganga glimmrandi vel. Flestar eru að koma í fyrsta skipti og auðvitað gerir smá heimþrá vart við sig af og til en við erum vanar öllu og duglegar að gefa knúsa og hughreista. Við forum í ratleik til að kynnast betur svæðinu og stelpurnar innbyrðis í herbergjunum sem þær voru settar í. Síðan byrjaði brennó og óþróttakeppnir sem eru alltaf partur af Vindáshlíð. Fyrsta kvöldvakan var um kvöldið þar sem fyrstu herbergin sýndu atriði og sungum við hátt og lengi. Stelpurnar voru orðnar ansi lúnar þegar átti að fara að sofa en margar voru vaknaðar áður en var vakið kl 9.00.
Á þriðjudeginum var áfram stuð og er ennþá uppstytta hjá okkur þó að við myndum gjarnan vilja hafa meiri sól, en alltaf gaman. Það var farið í göngu að réttunum og áfram var brennó milli herbergja og íþróttakeppnir héldu áfram, eins og t.d jafnvægiskeppni og broskeppni (æðislegt að eiga stærsta brosið). Föndurherbergið var opið og nokkrir að gera vinabönd, margar að greiða og setja”Vindáshlíðarfléttur” í hver aðra. Við ræðum alltaf við þær um almenna virðingu, fyrirgefningu og kærleika og muna að við erum allar mannlegar og getum gert mistök en ætlum að reyna að vanda okkur svo öllum líði vel og við getum átt frábæra viku saman.

Næstu herbergi voru með kvöldvöku og var mikið stuð og gaman, syngjum alltaf hátt og dönsum þar sem við á. 🙂

Stelpurnar voru duglegar að græja sig fyrir háttinn og sumar fóru út að læk að bursta, allar voru komnar inn í herbergi þegar bænakonur áttu að koma til að fara yfir daginn með þeim, spjalla og koma þeim í ró en í staðinn komu þær hoppandi og skoppnandi, málaðar í náttfötum að bjóða í náttfatapartý… það kom stelpunum mjög skemmtilega á óvart og var ferlega mikið stuð – dans upp á borðum, söngur og sviti.
Foringjar tóku skemmtilegt leikrit sem endaði með íspartý og upplestri.
Eftir þetta fóru þær inn í rúm uppgefnar eftir góðan dag. Bænakonur fylgdu þeim í rúmið og sváfu langflestar þar til átti að vekja þær kl 9.00, örfáar vaknaðar fyrr sem læddust um og voru rólegar frammi.

Endilega fylgist með myndunum okkar og á instagram 🙂

b.kv. Hanna Lára forstöðukona og allir hinir