Heil og sæl kæru foreldrar/forráðamenn

Dagurinn í gær var heldur betur vel nýttur í sólinni, farið var að Brúðarslæðu til að busla og var makað sólarvörn vel á alla áður. Nesti var borðað á staðnum og drukkið ískalt lækjarvatn með.
Þegar komið var til baka var kominn stríðnispúki í foringjana sem sóttu fötur og vatnsbyssur til að hella yfir og sprauta á stelpurnar sem fannst það hriklalega gaman. Sumar sprautuðu líka og renndu sér á „slide“ rennibraut í grasinu. Aðrar flatmöguðu á grasinu í sólinni og aðrar léku sér. Áfram hélt góða veðrið og var ákveðið að byrja kvöldvökuna úti á leikjum áður en farið var inn og horft á leikritin. Stelpurnar eru duglegar að læra ný lög og hlusta vel á það sem við erum að kenna þeim, t.d um umburðarlyndi, fyrirgefningu, kærleikann og í dag um Séra Friðrik Friðriksson. Auðvitað kemur heimþrá af og til en það er bara eðlilegt að sakna og það verður gaman að hittast aftur á laugardaginn. 🙂

Ró var komin í húsið um miðnætti og voru margar vaknaðar fyrir 9.00 í morgun – við eiginlega skiljum ekki alla þessa orku sem þær eru með og munu örugglega sofa í viku þegar þær koma heim 😉

Í dag eru tvær göngur í boði og mega þær velja um að fara að Pokafossi og leiki eða upp með læknum í stígvélum og leiki þar. Brennókeppnin er orðin gríðarlega spennandi og mun koma í ljós eftir kaffi hvaða fjögur lið komast í úrslitin. Föndurherbergið er alltaf vinsælt og að gera vinabönd í setustofunni.
Í kvöld verða síðustu 3 herbergin með atriði á kvöldvöku og á morgun er veisludagur. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt hjá okkur.

Ef þið sækið stelpuna ykkar fyrr hingað uppeftir er gott að fá símtal um það. Rútan fer kl 14 héðan á laugardaginn og við hittum ykkur kl 15 á Holtaveginum.
Myndirnar halda áfram að dælast inn og eitthvað af myndböndum á instagram – endilega skoða þar.

Bestu kærleikskveðjur úr Vindáshlíð, Hanna Lára og allir hinir