Í dag vöknuðu stelpurnar við að foringjarnir voru talandi bresku og segjandi hluti eins og: „good morning and welcome to England“ en það var vegna þess að í dag var Breskur dagur. Foringjarnir klæddust upp sem til dæmis spice girls, konungsfjölskyldan, enskir fótboltamenn og fleira. Sungin var borðsöngurinn á ensku og einnig fánasögurinn.
Eftir morgunmat var haldið á morgunstund með forstöðukonu en síðan hélt brennókeppnin áfram ásamt íþróttakeppnum og fleiri gleði sem við höfum upp á að bjóða hér í Vindáshlíð. Í hádegismatinn fengu stelpurnar Lasagna en síðan var haldið í útiveru. Í útiveru í dag var farið í leikinn Flóttinn úr Vindáshlíð sem er einskonar eltingaleikur. Stelpurnar eiga að reyna að hlaupa og finna vísbendingar sem hjálpar þeim að flýja úr Vindáshlíð en á meðan eru foringjarnir sem voru með einskonnar „foringjaveiki“ sem lýsir sér í að foringjarnir eru orðnir pínu ruglaðir með flekki í andlitinu að reyna að elta stelpurnar og setja þær í fangelsi. Þessi leikur vakti mikla lukku hjá stelpunum og skemmtu þær sér allar konunglega en voru vel þreyttar eftir hlaupin að leiks lokum.
Í kaffitímanum var boðið upp á jógúrtköku og kryddbrauð og að sjálfsögðu var boðið upp á te líka fyrir þær sem vildu í anda breska dagsins. Eftir kaffitíman var aftur komið að brennó og íþróttum en einnig var boðið upp á föndur og kósýheit.
Í kvöldmat var svo fiskur og franskar eða eins og bretinn kallar það, fish and chips. Stelpurnar héldu svo í kvöldvöku þar sem að spilaður var leikurinn Capture the flag. Þar var öllum 80 manna hópnum skipt upp í tvö lið, bleika og bláa liðið. Markmið leiksins er að reyna að ná fánanum hjá hinu liðinu án þess að vera náð. Við spiluðum þennan leik utandyra í fallegu náttúrunni okkar í Vindáshlíð. Stelpurnar nutu sín vel í leiknum en síðan var komið að kvöldkaffi og svo loks hugleiðingu þar sem að þessu sinni var rætt um það hvað við erum dýrmætar hver og ein okkar eins og við erum.
Það voru því mjög þreyttar en glaðar stelpur sem lögðust á koddan hér í Hlíðinni í kvöld eftir frábæran breskan dag. Hver veit hvaða ævintýri við lendum í á morgun.
Ég minni aftur á símatíma alla daga milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044 ásamt instagramminu okkar (@vindashlid) og myndum frá flokknum inn á: Myndir 7. flokkur
Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona