Það voru 80 heldhressar stúlkur sem mættu hingað upp í Vindáshlíð í gærmorgun. Flestar höfðu komið áður en þó eru hér nokkrar sem að eru að koma í fyrsta skiptið. Spennan var gríðaleg og það er alveg á hreinu að hér verður mikil gleði næstu daga. Við byrjuðum á því að skipta stelpunum niður í herbergi og fara yfir reglurnar á staðnum.
Þegar að allar voru búnar að koma sér fyrir var komið að hádegismat þar sem að var grjónagrautur í matinn, stelpunum til mikillar gleði. Þær borðuðu allar vel en síðan var komið að útiveru. Í útiveru var ratleikurinn Amazing Race þar sem herbergin unnu saman við það að reyna að safna stigum út um alla Vindáshlíð. Að útiveru lokinni var komið að kaffitíma þar sem að stelpurnar fengu dýrindis súkkulaðiköku.
Sólin skein hér í hlíðinni þannig að kaffitíma loknum var frjáls tími þar sem að flestar stelpur héldu sig utandyra í sólinni. Brennókeppnin sívinsæla fór af stað ásamt íþróttakeppnunum en einnig var í boði að föndra, gera vinaarmbönd og hoppa í hoppukastalanum.
Í kvöldmat voru kjúklingaleggir og franskar. Að kvöldmat loknum var haldið í kvöldvöku þar sem farið var í allskonar leiki í íþróttahúsinu. Síðan var haldið í kvöldkaffi og loks hugleiðingu. Þar var talað um að Jesús er alltaf með okkur, í gegnum erfiða og hamingjusama tíma, þó svo að við vitum kannski ekki að því. Við sungum líka falleg lög og nutum saman. Stelpurnar fengu svo að tannbusta sig í tannbustalæknum okkar sem að er gömul hefð hér í Vindáshlíð. Það vakti mikla lukku.
Þegar að stelpurnar voru búnar að tannbusta og klárar í háttinn var komið að bænakonuleitinni, en hvert og eitt herbergi fær sína bænakonu úr foringjahópnum sem fylgir herberginu í gegnum flokkinn. En vanalega fá stelpurrnar að vita hver sín bænakona er strax við komu í Vindáshlíð en þar sem að þetta er ævintýraflokkur þá var ákveðið að gera smá leik úr þessu þar sem að bænakonurnar földu sig um húsið og stelpurnar þurftu að finna sína bænakonu.
Þetta er alveg stórskemmtilegur stúlknahópur. Fjörugar, skemmtilegar og flottar og okkur hlakkar mikið til að fá að kynnast þeim betur hér í 7. flokk.
Ég minni á að foreldrar og forsjáraðilar geta haft samband við forstöðukonu alla daga milli 11:30 og 12 í síma 566-7044. Það er velkomið að hringja og spyrjast frétta af stelpunum en ég minni einnig á instagram síðu Vindáshlíðar (@vindashlid) en við ætlum að reyna að posta þar í story.
Við byrjum í dag að setja inn myndir á eftirfarandi slóð: Myndir 7.flokkur
Hlýjar kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona