Í dag vöknuðu stelpurnar eldhressar enda er veisludagur í dag svo spennan var mikil. Þegar að þær vöknuðu voru foringjarnir allir klæddir í sumarföt og sögðu stelpunum að flugið þeirra til Tenerife færi eftir hálfttíma. Þegar að þær mættu inn í matsal í morgunmat voru þær komnar í flugið sem leiddi þær beinustu leið til Tenerife. Það var því sól og gleði í hjarta í allan dag þrátt fyrir rigningu og rok hér í Hlíðinni. Það stoppar ekkert gleðina hér hjá okkur.

Í morgunstund með forstöðukonu ræddum við um sjálfmyndina og það að við erum fullkomnar eins og við erum. Allar erum við ólíkar en frábærar. Eftir morgunstund var haldið í úrslit brennó þar sem að Skógarhlíð stóð uppi sem sigurvegarar.

Í hádegismat var plokkfiskur og rúgbrauð. Vegna veðurs ákváðum við að hafa útiveruna inni í staðin og farið var í Vindáshlíð next top model þar sem að hvert og eitt herbergi fær svartan ruslapoka og má búa til einhverja flík á eina stelpu í herberginu og svo er haldin tískusýning. Þetta vakti mikla lukku og skemmtu stelpurnar sér konunglega.

Í kaffitímanum var boðið upp á brauð og smákökur en síðan var komið að vinagangi. En vinagangur er hefð hér í Vindáshlíð á veisludegi. Þá mega stelpurnar bjóða upp á eitthvað skemmtilegt inn í sínu herbergi og bjóða öðrum stelpum og foringjum að kíkja í heimsókn. Vinsælast var að bjóða upp á hárgreiðslu, nudd og spádóm en svo var alskonar annað líka í boði. Um klukkan hálf sex voru stelpurnar allar orðnar fínar og sætar fyrir veislukvöldið sem framundan var. Við byrjuðum á að fara í kirkjuna þar sem að við áttum notalega stund saman. Við lærðum um mikilvægi vináttunar. Að eiga góða vini er dýrmætt og hér í þessari viku hafa svo sannalega margar eignast nýjar og dásamlegar vinkonur.

Að messu lokinni var komið að veislukvöldmat þar sem að við fengum pizzu í kvöldmat. Það var sko heldur betur borðað vel af henni. Næst tók veislukvöldvakan við sem er oft hápunktur vikunnar hjá sumum stelpum en þá stíga foringjarnir á svið og eru með leikrit og mikið hlegið. Í hugleiðingunni fengu svo stúlkurnar íspinna og lærðu um kærleikann og hvað það er mikilvægt að elska sjálfan sig. Því ef maður getur ekki elskað sjálfan sig, hvernig getur maður þá elskað aðra?

Það voru því mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í kvöld eftir viðburðarríkan dag. Á morgun fer rútan frá Vindáshlíð kl 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 15:00. Þau ykkar sem að eigið börn sem ekki eru skráð í rútu verðið því að vera komin upp í Vindáshlíð að sækja dömurnar ekki seinna en 14:00. Endinlega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig á símatíma á morgun milli 11:30 og 12:00 í síma 566-7044.

Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur á bæði instagram Vindáshlíðar og myndir úr flokknum á eftirfarrandi slóð: Myndir 7. flokkur

Við í Vindáshlíð erum mjög þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni.

Sjáumst á Holtavegi á morgun rétt fyrir 15:00 🙂

Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona