Þriðjudagurinn 3. ágúst 2021
Komudagur
Í gær mættu til okkar 82 hressar og kátar stelpur í Vindáshlíð, tilbúnar í stuð og fjör næstu daga.
Við buðum þær velkomnar þegar þær voru allar komnar inn í matsalinn, fórum yfir nokkur atriði sem er gott að hafa í huga í Vindáshlíð og svo var öllum stelpunum raðað í herbergi. Vel var gætt að því að vinkonur gætu verið saman í herbergi. Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir í herbergjunum sínum fóru þær í smá könnunarleiðangur um svæðið og léku sér og borðuðu svo grjónagraut í hádegismatinn ásamt lifrarpylsu.
Eftir hádegi fóru svo allar stelpur í ratleik um svæðið. Það var heldur betur stuð og sólin lét meira að segja sjá sig en í ratleiknum er að finna skemmtilegar spurningar og þrautir ásamt því sem stelpurnar kynnast svæðinu ennþá betur.
Í kaffinu var svo boðið upp á jógúrtköku og eftir kaffi hófst æsispennandi brennókeppni á milli herbergja ásamt því sem keppt var í kraftakeppni. Þá æfðu nokkur herbergi atriði fyrir kvöldvöku kvöldsins og svo er alltaf vinsælt að gera vinabönd í setustofunni.
Í kvöldmatinn fengu stelpurnar fisk og kartöflur. Kvöldvakan var heldur betur hress og skemmtileg. Þar var sungið, sýnd voru leikrit og farið í skemmtilega leiki. Um kvöldið heyrðum við svo söguna um góða hirðinn sem gætir okkar alltaf og enduðum svo daginn saman á að syngja kvöldsöng Vindáshlíðar.
Hver og ein bænakona endaði svo daginn með sínu herbergi eins og er venjan hér í Vindáshlíð en þá eru sagðar sögur, spjallað um daginn eða farið í leiki áður en allir róa sig niður fyrir nóttina.
Við skilum kærum kveðjum til allra héðan úr Vindáshlíð þar sem ríkir stuð og fjör! 🙂