Miðvikudagurinn 4. ágúst 2021

Dagurinn í dag var heldur betur skemmtilegur hérna í Vindáshlíð í dag! Stelpurnar voru vaktar og boðið var upp á hefðbundinn morgunmat hérna í Vindáshlíð. Eftir morgunmatinn fórum við saman á fánahyllingu en þá drögum við fánann að húni og syngjum fánasönginn. Svo var biblíulestur þar sem stelpurnar gerðu morgunleikfimi og sungu saman ásamt því að læra að þær eru allar dýrmætar í augum Guðs, fallegar og ómetanlegar! Eftir biblíulesturinn hélt brennókeppnin áfram auk þess sem tvær íþróttakeppnir fóru fram, annars vegar var mælt hver var með lengsta brosið og hins vegar hver væri fljótastur að klæða sig í smekkbuxur úr búningaherberginu (yfir sín föt að sjálfsögðu).

Í hádegismatinn var boðið upp á hakk og spagettí og eftir hádegismat var Hlíðarhlaup þar sem stelpurnar keppa í því hvaða stelpa er fljótust að hlaupa niður að hliði en vegalengdin er um 1 km. Að loknu Hlíðarhlaupi gengu stelpurnar yfir í réttirnar og fóru í leiki þar þangað til heim var snúið. Í kaffinu voru svo ljúffengir pizzasnúðar og nýheimabökuð súkkulaðikaka en ráðskonan, bakarinn og eldhússtelpan stjana svo sannarlega við okkur allar!

Eftir kaffi æfðu fjögur herbergi atriði fyrir kvöldvökuna, stelpurnar kepptu í brennó og íþróttakeppnum auk þess sem föndurherbergið var opið. Eftir að hafa borðað blómkálssúpu og brauð í kvöldmat var svo kvöldvaka þar sem fjögur herbergi sýndu atriði og sungin voru lög úr söngbók Vindáshlíðar en það er gaman að sjá hvað stelpurnar eru alltaf að læra betur og betur lögin úr söngbókinni.

Í kvöldkaffinu voru borðuð svo mörg epli að ráðskonan hefur aldrei séð annað eins auk þess sem boðið var upp á kex. Á hugleiðingunni heyrðu stelpurnar söguna um Stradivaríusarfiðluna og lærðu að þær eru hver og ein dýrmæt sköpun Guðs. Eftir hugleiðinguna héldu stelpurnar að nú væri komið að háttatíma en þegar þær voru búnar að hátta komu foringjarnir dansandi inn svefnganginn syngjandi og trallandi þar sem það var komið að náttfatapartýinu. Um 80 stelpur dönsuðu og sungu inni í matsal og færðu sig svo yfir í setustofuna þar sem foringjarnir voru með atriði. Allt endaði þetta svo á því að allar stelpurnar fengu ís á meðan þær hlustuðu á kvöldsögu fyrir svefninn. Það voru sáttar en þreyttar stelpur sem lögðust til svefns í gær eftir viðburðarríkan dag í Vindáshlíð.

Kveðja

Bára Forstöðukona