Fimmtudagurinn 5. ágúst 2021

Stúlkurnar voru vaktar í morgun með tónlist og stuði. Eftir morgunmat og biblíulestur, þar sem við lærðum að fletta upp í Nýja testamentinu, hélt svo brennókeppnin áfram auk þess sem keppt var í húshlaupi en þá er keppt um það hver er fljótust að hlaupa í kringum húsið. Í hádegismatinn var lasagne og brauð sem kláraðist alveg upp til agna, svo gott var það!

Veðrið lék við okkur fyrir hádegi, sól, falleg ský og heitt í veðri. Eftir hádegi fóru stelpurnar í gönguferð á Pokafoss og Brúðarslæðu. Þær hófu gönguna í rigningu en komu til baka í fallegu veðri og höfðu sumar buslað í Brúðarslæðu. Í kaffinu var boðið upp á pizzasnúða og súkkulaðibitakökur sem lagðist vel í stelpurnar. Eftir kaffi var frjáls tími. Íþróttahúsið var opið þannig að það var hægt að fara í brennó. Það var hægt að keppa í húshlaupinu, gera vinabönd, hoppa í hoppukastalanum eða föndra í föndurherberginu. Þá voru einnig fjögur herbergi sem voru að undirbúa atriði fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn var svo fahítas með fullt af grænmeti og hakki.

Kvöldvakan var svo heldur betur í hressari kantinum. Fjögur herbergi sýndu skemmtileg og fyndin atriði og það var sungið og hlegið. Í kvöldkaffi voru bananar og appelsínur og saga kvöldsins kenndi okkur það að Jesús er alltaf til staðar fyrir okkur og fagnar okkur þegar og ef við viljum koma til baka eftir að hafa villst af leið. Þær stelpur sem vildu gátu svo farið út í læk og tannburstað tennurnar fyrir svefninn. Í lok dagsins kom svo bænakonan inn á sitt herbergi og endaði daginn með stelpunum.

Kveðja

Bára Forstöðukona