Í dag komu 80 mjög hressar stelpur til okkar í Vindáshlíð. Það voru mjög margar sem höfðu komið áður enn þónokkrar sem voru að koma í fyrsta skipti.

Þær fengu að vita herbergið sitt enn þurftu að bíða eftir því að vita hvaða bænakonu þær fengu.

Í hádegismat var ljúffengur grjónagrautur sem rann auðveldlega ofan í þær. Eftir mat var komið að útiveru og að vana var ratleikur enn þar sem þetta er ævintýraflokkur var búið að lagfæra hann aðeins. Í þetta skiptið var leikurinn útfærður eins og Amazing race, stelpurnar fengu blað með þrautum sem þær ættu að klára til þess að fá stig fyrir. Við voru mjög heppnar með veður og heppnaðist ratleikurinn mjög vel. Þegar stelpurnar kláruðu leikinn tók á móti þeim dásamlegur kökuilmur þar sem bakarinn okkar hafði bakað súkkulaðiköku og pizzasnúða.

Loksins var komið að brennó, íþróttum, föndri og frjálsum tíma. Flestar þeirra sem höfðu komið áður biðu spenntar eftir að byrja brennó keppnina og sumar þeirra voru búnar að æfa sig yfir veturinn.

Næst var komið að kvöldmat þar sem stelpurnar fengu fisk í raspi að hætti Vindáshlíðar. Kvölvakan tók við og fóru stelpurnar niður í íþróttahús í smá hópefli. Þær fóru í nokkra hópleiki og skemmtu sér konunglega.

Við endum alltaf daginn saman með kvöldhressinu þar sem þær fá ávexti fyrir nóttina og svo eyðum við rólegri stund saman. Á þessari stund sem við köllum hugleiðingu hlusta þær á foringja sem er að segja frá bæn, sögu eða jafnvel tala um eigin reynslu með trúnna.

Þar sem stelpurnar fengu ekki að vita hver þeirra bænakona væri þá var svokölluð bænakonuleit. Bænakonuleit virkar þannig að þær fá 2 staðreyndir um sína bænakonu og þurfa svo að finna hana þar sem hún faldi sig einhverstaðar í húsinu. Þegar þær finna sína bænakonu byrjar svokallað bænó, á bænó fá þær gæðastund með bænakonu og hún hjálpar þeim að slaka á og kynnist þeim enn betur.

 

Við hlökkum mikið til að eyða næstu dögum með stelpunum.

 

Kveðja

Andrea Forstöðukona