Í gær fengum við mjög hressan og skemmtilegan hóp til okkar hér í Vindáshlíð. Þetta eru stelpur á aldrinum 9 – 11 ára og af rúmlega 80 stelpum eru rúmlega 70 að koma í Vindáshlíð í fyrsta skipti. Það hafa því verið forvitnar og fróðleiksfúsar tilvonandi Hlíðarmeyjar hér.
Fyrsta daginn röðuðum við þeim í herbergi, pössuðum auðvitað að allar vinkonur fengju að vera saman og svo fengu þær smá kynnisferð um svæðið okkar. Það kom svo fljótlega hádegismatur þar sem þær fengu dýrindis kjúklingaleggi og franskar kartöflur.
Eftir hádegi var svo farið í ratleik um svæðið og alls kyns þrautir leystar.
Eftir kaffitíma var hefðbundin íþrótta og Brennókeppni þar sem allar stelpurnar fengu að spreyta sig í Brennó og taka þátt í húshlaupi þar sem hlaupið er kringum aðal bygginguna á svæðinu.
Í kvöldmatinn var súpa og svo tók við kvöldvaka, kvöldkaffi og bænakonurnar komu svo inn í herbergin til stelpnanna, og svo var ró eftir það.
Kvöldið var pínu smitað af heimþrá þar sem margar stelpur eru að koma í fyrsta skiptið til okkar og margar að fara að heiman í fyrsta skiptið líka. Flest öll tilfellin voru þó vel læknanleg og allar sofnuðu stelpurnar að lokum, þó örfáar hafi sofnað aðeins seinna en hinar.

Í morgun stóð til að vekja hópinn klukkan 9, en þá voru allar stelpurnar vaknaðar og flestar búnar að vera vakandi í 1 -2 klukkutíma. Það er bara skemmtilegt og gaman að sjá hvað þær voru spenntar að hefja nýjan dag á þessum frábæra stað. …og jú, þær sváfu bara langflestar alveg ágætlega. 😊
Í dag var hefðbundin morgundagskrá með morgunmat, fánahyllingu, morgunstund og svo brennó og íþróttakeppni.
Hádegismaturinn var svo sívinsæli grjónagrauturinn með lifrapylsu og óhætt að segja að hann hafi runnið vel ofan í hópinn.
Í dag var mjög fallegt og gott veður hér í Vindáshlíð og því var ákveðið að fara með allar stelpurnar í gönguferð að fossi hér í nágrenninu. Þar er hægt að busla og leika sér. Gangan stoppaði þó aðeins fyrr og þær léku sér við smá lækjarsprænu í nágrenninu í góða veðrinu.Svo héldum við áfram með hefðbundna íþrótta og brennó dagskrá eftir gönguferðina og kvöldvakan og kvöldkaffið var á sínum stað eftir kvöldmatinn sem var dýrindis fiskur í raspi með kartöflubátum og grænmeti.
Dagurinn gekk í heildina mjög vel og það voru þreyttar en samt glaðar stelpur sem að lögðust í kojurnar og flestar voru þær sofnaðar um 23 leytið. (sumar fyrr, aðrar aðeins seinna)

Flestar stelpurnar eru glaðar og hressar og þær sem smitast af heimþránni eru yfirleitt fljótar að læknast aftur og gleyma sér.
Einu ”ekki góðu” fréttirnar eru þær að Lúsmýið bauð sér í heimsókn og hefur verið að hrella okkur allar. Því miður eru margar stelpur komnar með bit og nokkrar með fleiri bit en aðrar, en við reynum að bregðast við með ”after bite” áburði fyrir þær sem vilja þiggja það.

Símatími er frá 11 – 12 á daginn og í dag voru allar línur rauðglóandi allan tímann og ekki hægt að svara öllum, því miður. Ég mun þó svara í símann ef ég er nálægt honum yfir daginn, en bið fólk að virða símatímann og vita að þegar ég er ekki við símann, þá er ég að hugsa um börnin og starfið okkar hér.
Við sendum bestu kveðjur heim til allra foreldranna og systkina sem fylgjast með og reynum að setja fréttir af okkur í lok dags á morgun.

Hlíðarkveðja, Jóhanna Steinsdóttir, forstöðukona.