Dagur 3, laugardagur.
Í dag vöknuðum við, við fuglasöng og fallegt veður.
Við vorum með mjög hefðbundna “fyrir hádegi” dagskrá, þar sem við vorum með morgunmat, fánahyllingu, lærðum um mjög merkilegt rit sem að heitir Biblía og sungum nokkra skemmtilega söngva. Eftir þetta var frjáls tími þar sem nokkur herbergi kepptu í brennó, margar stelpur tóku þátt í íþróttakeppni og annars var frjáls tími þar sem þær léku sér inni og úti fram að hádegismat.
Við fengum svo “besta lasagne í heimi”, eða Vindáshlíðar – lasagne í hádegismat og höfðu nokkrar stelpur á orði að þetta væri besta lasagne sem þær hefðu smakkað.
Í dag ákváðum við svo að fara í góða gönguferð upp að Sandfellstjörn og leika, sulla, busla og njóta saman. Þegar þær komu aftur beið kaffitíminn þeirra úti. Í dag var boðið upp á skúffuköku með bleiku kremi og kanillengjur og rann þetta allt ljúflega ofan í þreyttar en glaðar stelpur.
Þær fengu svo frjálsan tíma aftur með brennóleikjum, íþróttakeppni, föndurherbergið var opið og vinabanda-gerð í setustofunni naut vinsælda líka. Margar stelpur vour líka bara úti að njóta góða veðursins.
Kvöldmaturinn var svo mjög vinsæll, tortillas með hakki og grænmeti.
Kvöldvakan, kvöldkaffið og hugleiðing voru á sínum stað eftir kvöldmat.
Svo gerðist dálítið óvænt í kvöld, því þegar að bænakonurnar áttu að koma inn í herbergi (rétt fyrir klukkan 22) mættu allt í einu prúðbúnar bænakonur með pottlok, ausur og sleifar, klósettpappír í hárinu (hreinan, auðvitað) og með skreytt andlit og þeim fylgdi mikið fjör og læti og þær sungu: ”hæ hó jibbí jey og jibbí jeyy, það er komið náttfatapartý”!
Hér var því mikið fjör, dansað uppi á borðum, tónlistin í botni og eldhressar stelpur í náttfatapartýi í tæpan klukkutíma.
Þegar fjörið var búið tók við að koma stelpunum í ró og það gekk ótrúlega vel heilt yfir.
Lúsmýið hefur verið að hrella okkur og stelpurnar orðnar flestar útbitnar og sumar mun verri en aðrar, því miður. Við geturm að sjálfsögðu ekki komið í veg fyrir þetta en reynum að bera á þær after bite, hlúa að þeim sem þurfa þess og fylgjumst vel með.
Ég minni á símatímann milli 11 og 12 á morgun og ítreka að ég á erfitt með að svara símanum utan símatímans.
Einnig vil ég minna á myndirnar sem má finna annarsstaðar á þessarri síðu. Við reynum að setja inn myndir og fréttir daglega, endilega fylgist með.
Annars erum við í góðum gír í Vindáshlíð og sendum bestu kveðjur heim til fjölskyldnanna.
Kveðja, Jóhanna Steinsdóttir, forstöðukona.