Sunnudagurinn og fjórði dagur flokksins var aldeilis merkilegur dagur. Við byrjuðum á að heiðra og kenna stelpunum það að þegar að stúlka hefur dvalið í Vindáshlíð í dvalarflokki í 3 nætur samfellt, þá kallast hún Hlíðarmey. Þær eru því allar orðnar formlegar Hlíðarmeyjar og við fögnuðum því með spari-morgunmat (Coco Pops). Dagurinn í dag er líka veisludagur, en síðasti dagur flokksins er alltaf kallaður veisludagur og þá er aðeins öðruvísi dagskrá um kvöldið.
Dagskráin yfir daginn var svo auðvitað mikil og skemmtileg. Við fórum m.a. í síðustu brennóleikina og fundum út hvaða herbergi ber titilinn ”Brennómeistarar 1. flokks”.
Hádegismaturinn var ljúffengur plokkfiskur og rúgbrauð.
Eftir mat var farið í að undirbúa kirkjustundina okkar, en í Vindáshlíð eigum við mjög fallega kirkju sem við notum yfirleitt í hverjum flokki. Við vorum með sönghóp, bæna og undirbúningshóp, leikhóp og skreytingarhóp og hver hópur hafði sínu hlutverki að gegna í messunni okkar.
Kaffitíminn var mjög vinsæll, eins og áður, en stelpurnar hafa fengið heimabakaðar kökur og brauð í hverjum kaffitíma og þær borða alltaf vel af því.
Eftir kaffi og fram að veislukvöldmat fengu stelpurnar að bjóða upp á allskonar sniðugt og skemmtilegt í herbergjunum sínum fram að mat. Þær áttu að nota tímann til að klæða sig í veislufötin og svo mátti finna t.d. nuddstofur, hárgreiðslustofur, naglalökkun og fleira. Þær voru á ferð um húsið og skoðuðu og nýttu sér tilboð hjá hinum og allar höfðu mikið gaman af.
Veislukvöldið okkar byrjaði svo á kirkjustundinni, þar sem allar stelpurnar mættu í sparifötunum og allar áttu þær einhvern þátt í stundinni.
Við ”vefuðum mjúka og dýrindis dúka” eftir það, og tókum svo myndir af hverju herbergi fyrir sig með bænakonunni sinni. Við vorum svo heppnar að veðrið lék við okkur svo við gátum haft útimyndatöku. (Myndirnar eiga að koma á netið í dag, ef þær komu ekki í gær)
Veislumaturinn gekk vel, Vindáshlíðarpizzan var endalaust vinsæl og svo voru veittar viðurkenningar fyrir alls kyns keppnir og annað.
Kvöldvakan var með hefðbundnu veislukvöldvökusniði þar sem foringjarnir fóru á kostum í hverju leikritinu á fætur öðru og allir höfðu mikið gaman af.
Kvöldið okkar dróst aðeins á langinn (það var bara svo gaman hjá okkur) svo kvöldkaffið var frekar seint. Þær fengu ávexti og ís í eftirrétt. Þetta þýddi samt það að þær voru orðnar mjög þreyttar og fóru frekar seint að sofa. Við höfum reynt að passa vel upp á að kvölddagskráin henti aldrinum, en því miður þá náðum við því ekki í gær. Við reyndum þó að gera okkar besta og flestar stelpurnar voru sofnaðar um miðnætti. Við ákváðum því að seinka morgninum aðeins í staðin…
Mánudagurinn/heimfarardagur byrjar því ekki fyrr en 9:30 og núna þegar þetta er skrifað eru nánast allar stelpurnar sofandi ennþá.
Dagurinn er fullur af dagskrá eins og áður en ég mun ekki setja fleiri fréttir inn af okkur þar sem ég ætla að njóta síðasta hálfa dagsins með þeim. Við ætlum að skemmta okkur vel þessar síðustu klukkustundir í Vindáshlíð og svo munum við mæta á Holtaveg 28 klukkan 15 í dag.

Flokkurinn er búin að ganga rosalega vel í heildina. Lúsmýið hefur hrellt okkur aðeins, en það er bara eitthvað sem við ráðum ekki við, nema bara með ”after bite” pennanum góða. Heimþráin sem var mikil í byrjun er nánast engin núna og vonandi bara glaðar og kátar Hlíðarmeyjar sem koma í bæinn í dag eftir að hafa verið með okkur á þessum dásamlega stað í 1. flokki. Veðrið hefur leikið við okkur alla dagana, þó með smá rigningu í dag.
Ég er ótrúlega ánægð með hópinn í heild sinni og hef haft mjög gaman af því að vera með þessum dásamlegu Hlíðarmeyjum hér í Vindáshlíð.
Kveðja, Jóhanna Steinsdóttir, forstöðukona.