Dagurinn í gær var heldur betur skemmtilegur hjá okkur hér í Vindáshlíð. Stelpurnar voru vaktar með Abba lögum og í morgunmatnum var sett á svið dansatriði úr bíómyndinni Mamma Mia. Eftir morgunmatinn var fánahylling og Biblíulestur þar sem við skoðuðum saman bænir og þá sérstaklega Faðir vorið. Að Biblíulestri loknum var frjáls tími þar sem boðið var upp á íþróttakeppni, brennóleiki, vinabönd ofl. Í hádegismat var fiskur í raspi, kartöflufranskar og grænmeti. Eftir mat var frjáls tími til kl. 14, þá ómaði bjallan og farið var í ,,Flóttann“, þar sem stúlkurnar áttu að flýja undan starfsmönnum Vindáshlíðar og leita aðstoðar starfsmanna annarra sumarbúða. Í kaffinu fengu stelpurnar bananabrauð og fram að kvöldmat æfðu herbergin atriði fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn var marglit skyr og pizzabrauð. Á kvöldvökunni var síðan ,,Vindáshlíð got talent“ þar sem Justin Bieber og Nicki Minaj voru dómarar. Að kvöldvöku lokinni var kvöldkaffi og hugleiðing. Stúlkurnar fengu síðan að tannbursta sig í læknum fyrir bænó.

Í morgun 17.júní eru þær stúlkur sem eru að koma í Vindáshlíð í fyrsta sinn formlega orðnar Hlíðarmeyjar og af því tilefni var sparimorgunmatur á borðum. Eftir morgunmatinn fóru stelpurnar í 17.júní skrúðgöngu upp að fána og var Biblíulesturinn haldinn í kirkjunni. Að Bíblíulestri loknum byrjaði 8-liða útsláttakeppni í Brennó og keppt var í minnisleik. Í hádeginu fengum við kjötbollur, kartöflumús og grænmeti. Eftir hádegismatinn var 17.júní Hlíðarhlaup þar sem stúlkurnar hlupu niður að hliði. Að hlaupi loknu komu þær aftur uppí Vindáshlið og þar beið þeirra 17.júní gleði þar sem boðið var uppá andlitsmálningu, fótboltamót, pokahlaup, fléttur í hárið og stúlkurnar hittu spákonu. Í kvöldmatinn fengum við súpu og brauð og eftir kvöldmat var farið í kvöldgöngu að pokafossi. Settur var á svið lítill leikþáttur um fossinn Pokafoss og fengu stelpurnar allar nammi. Þegar heim var komið var hugleiðing og kvöldkaffi. Við enduðum góðan dag á fjörugu náttfatapartýi þar sem Gilsbakkasystur komu í heimsókn og elduðu fyrir okkur gómsætan eftirrétt.