Það var ótrúlega flottur hópur af 11 – 13 ára stelpum sem að mættu í Vindáshlíð í dag.
Margar hafa komið áður, og sumar í nokkur skipti, en af rúmlega 80 stelpum eru um 30 sem að eru að koma í Vindáshlíð í fyrsta sinn sem er mjög skemmtilegt. Loftið var fullt af spennu og eftirvæntingu þegar þær fylltu matsalinn og við vorum að raða þeim í herbergi eftir bestu getu svo að allar vinkonur gætu verið saman.
Þegar allar stelpurnar voru komnar með herbergi og búnar að koma sér fyrir, fengu þær kynningu á staðnum með starfsmanni.
Það var svo fljótlega komin hádegismatur. Við fengum kjúklingaleggi og franskar sem að runnu ofan í hópinn með bestu lyst.
Eftir hádegi var svo farið í leik um svæðið þar sem herbergin unnu saman við að leysa alls kyns þrautir og svara spurningum.
Á svona stað líður dagurinn oft hratt og mikið er um að vera. Það hefur ekki verið nein undantekning hér, og stemningin hefur verið mjög góð í hópnum. Eftir kaffið var ýmislegt í boði, Brennókeppnin fór af stað, íþróttakeppnin líka og svo voru vinabönd hnýtt af miklum áhuga í setustofunni.
Kvöldmaturinn var svo ekki af verri endanum þar sem þær fengu tortillur með hakki og grænmeti og allir gátu sett saman sína bestu útgáfu af vefju.
Kvöldvakan er með óhefðbundnu sniði í ævintýraflokk svo núna skemma þær sér við ”top model” keppni, þar sem herbergin vinna saman að kjólagerð og skrauti úr endurnýttu efni og náttúrunni.

Kvöldið er ekki búið, kvöldvakan enn í gangi þegar þetta er skrifað, en við vonumst til að allt eigi eftir að ganga eins vel og í dag.
Á morgun eru fyrstu myndir væntanlegar á netið, en við erum að reyna að vera duglegar að taka myndir.

Við erum ótrúlega spenntar fyrir þessarri viku með stelpunum.
Hlíðarkveðjur, Jóhanna Steinsdóttir, forstöðukona.