Dagur 2, mánudagur.

Þennan dag vöknuðu hressar og glaðar stelpur og allar til nýjan dag í Vindáshlíð.

Þegar stelpurnar komu fram í setustofu og morgunmat, þá urðu margar dáldið skrýtnar á svipinn að sjá jólatré, jólaljós og jólaskreytingar. Það voru nefnilega haldin Jól í Vindáshlíð þennan daginn 😊
Morgunmaturinn var hefðbundin, súrmjólk, Cheerios og Kornflex og svo var fánahylling, biblíulestur og frjáls tími með Brennókeppni, íþróttakeppnum og fleira í gangi.
Hádegismaturinn var grjónagrautur og lifrarpylsa sem þótti mjög gott.
Eftir hádegi fór hópurinn svo í gönguferð að Sandfellstjörn. Þær komust nú samt ekki alla leið að tjörninni, en gangan fór í áttina að henni og svo heim aftur og allir fengu nóg af fersku lofti, smá hreyfingu og höfðu gaman af.
Eftir kaffi var svo aftur frjáls tími fram að kvöldmat og í matinn var fínasti fiskur í raspi með sallati.
En af því að það voru jól, þá var ákveðið að bjóða upp á jólabíó á kvöldvökunni og stelpurnar fengu að mæta á náttfötum með sængur og bangsa að horfa á bíómynd. Svo fengu allir popp líka og höfðu það kósý saman.
Eftir bíóið var komið að því að ljúka deginum með kvöldkaffi og hugleiðingu, en þegar bænakonur áttu að vera að mæta inn í herbergi þá voru þær sóttar eiginlega strax aftur af starfsmanni sem þurfti aðeins að tala við þær. Örfáum mínútum síðar birtust svo allar bænakonurnar í náttfötunum, með hávaða, látum og sungu hástöfum ”hæ hó jibbí jey og jibbí jey, það er komið náttfatapartý”!
Hér var því sungið, dansað, sungið meira, hlegið og mikið fjör þangað til klukkan var orðin allt of margt. Við enduðum partýið á íspinna og sögu og svo fóru allar stelpurnar að sofa fljótlega eftir það.

Dagur 3, þriðjudagur.
Af því að við vöktum svo rosalega lengi í gær og skemmtum okkur saman, þá fengu allir að sofa klukkutíma lengur í morgun og það var ótrúlegt hvað var mikil ró og þögn í húsinu nánast alveg þar til við vöktum þær.
Við höfum svo verið í hefðbundnu prógrammi í morgun, morgunmat, fánahylling, biblíulestur og frjáls tími.
Hádegismaturinn var afskaplega gott Vindáshlíðar – lasagne með sallati og þær borðuðu mjög vel af því.
Eftir hádegið var svo leikur sem að stelpurnar tóku þátt í, en af því að það er Disney dagur í dag, þá þurftu herbergin að vinna saman að þvi að finna Bruno (úr myndinni Enchanto) og þar voru alls kyns verur úr myndinni sem að hjálpuðu til, -eða hjálpuðu ekki til. Ég held að þeim hafi fundist leikurinn skemmtilegur og veit að starfsfólkið hér skemmti sér a.m.k. vel.
Dagurinn er bara rétt hálfnaður þegar þetta er skrifað og nóg eftir.
Lúsmýið er aðeins farið að láta á sér bera en við fylgjumst vel með og eigum ”after bite” fyrir þær sem lenda í óboðnu gestunum og reynum að fylgjast með þeim.
Við sendum fréttir aftur, vonandi á sama tíma á morgun ef allt gengur upp. Einnig ættu að vera komnar myndir á myndasíðuna okkar en við reynum að setja inn myndir daglega.

Bestu kveðjur til allra frá hressum og kátum ævintýraflokks-stelpum 😊
Jóhanna Steinsdóttir, forstöðukona.