Dagur 3 framhald

þriðjudagurinn var mjög skemmtilegur og stelpurnar skemmtu sér vel yfir daginn í alls kyns leikjum, íþróttakeppnum, Brennó og fleiru.
Eftir kvöldmat var svo boðið upp á ”Vindáshlíð got talent” þar sem stelpurnar fengu að láta ljós sitt skína ef þær vildu. Þáttaka var góð og margir hæfileikar létu sjá sig, flestir þó í formi leiklistar. Eftir hæfileikakvöldið var svo boðið upp á franskt kaffihús í matsalnum þar sem þjónarnir töluðu bara frönsku og þjónuðu til borðs. Á matseðlinum var bananasúkkulaðikaka með karmellusósu og rjóma. Til marks um hversu góð hún var, þá var nánast ekkert eftir á flestum diskum stelpnanna.
Við reyndum svo að fara að sofa á skikkanlegum tíma, nokkrar voru sofnaðar uppúr 23, en það gekk verr hjá öðrum og margar stelpur voru ekki sofnaðar fyrr en vel eftir miðnætti.

Dagur 4.
Við vöktum stelpurnar á venjulegum tíma í dag, eða um kl. 9:00. Veðrið lék við okkur í morgun og það stefnir í að þetta verði besti dagur vikunnar, veður-lega séð.
fjórði dagur flokksins er líka aldeilis merkilegur dagur. Við byrjuðum á að heiðra og kenna stelpunum það að þegar að stúlka hefur dvalið í Vindáshlíð í dvalarflokki í 3 nætur samfellt, þá kallast hún Hlíðarmey. Þær eru því allar orðnar formlegar Hlíðarmeyjar og við fögnuðum því með spari-morgunmat (Coco Pops) ásamt hefðbundnum morgunmat.
Morgnarnir hafa svo verið frekar hefðbundnir hjá okkur með fánahyllingu og svo biblíulestri eftir það og svo dreifast þær um svæðið fram að hádegismat í útiveru, föndri, íþróttum, brennó og sumar velja að vera bara í setustofunni og hafa það kósý í vinabandagerð eða öðru sniðugu.
Í dag voru þær þó flestar úti enda skein sólin glatt á okkur.
Í hádegismatinn var boðið upp á kjötbollur, kartöflumús og brúna sósu með.
Eftir hádegi ákváðum við að nýta veðrið og fara í góðan göngutúr með nesti með okkur. Við fórum með allar stelpurnar að fossinum Brúðarslæðu og þar var hægt að vaða og leika sér í vatninu, eða sitja og njóta og horfa á hinar stelpurnar leika sér. Þetta er ekki löng ganga en það var mjög heitt hjá þeim þarna og eiginlega bara nauðsynlegt að sulla aðeins í vatninu til að kæla sig.
Eftir gönguferð var frjáls tími og svo var þessi fína blómkálssúpa í kvöldmatinn, ásamt nýbökuðum brauðbollum.
Kvöldvakan var svo ekki af verri endanum, en þá var farið í leik sem er alltaf jafn vinsæll hér í Vindáshlíð og gengur út á að stelpurnar hlaupa um svæðið til að safna hlutum og mega ekki vera ”klukkaðar”. Ef svo er að einhver er klukkaður þá þarf resti af herberginu að hjálpa þeim  og ”afklukka” viðkomandi.
Flestar skemmtu sér dásamlega, hlupu mikið og  höfðu mikið gaman.
Þegar þetta er skrifað er komið vel fram yfir miðnætti og mikil kyrrð og ró í húsinu.
Á morgun er veisludagur og mikil dagskrá framundan.
Að lokum. Það er búið að vera eitthvað vesen með myndasíðuna okkar, myndirnar hafa ekki verið að birtast á netinu en vonandi er það komið í lag núna.
Sólarkveðjur úr Vindáshlíð, Jóhanna Steinsdóttir.