Heil og sæl öll

í gær mættu hingað í Vindáshlíð 83 ofurhressar skvísur, lang flestar að koma í fyrsta skipti. Við byrjuðum á að fara yfir reglur, raða í herbergi og segja aðeins frá staðnum áður en við fengum dýrindis grjónagraut í hádegismat. Í útiveru var ákveðið að fara í hópeflisleiki og fjör saman í íþróttahúsinu sem var mjög gaman.

Herbergin byrjuðu að keppa í brennó og íþróttakeppnum, broskeppni og húshlaupi. Einnig var opið í föndurherbergi, vinabönd í setustofu, leikir á íþróttavelli og sumir fóru að sulla í læknum okkar.

Alltaf eitthvað nýbakað og gott í kaffitímanum hér sem vekur alltaf upp gleði.

Við fengum kjúlla í kvöldmat og svo var farið á kvöldvöku þar sem fyrstu þrjú herbergin voru með atriði á kvöldvöku. Við lærðum svo um Gullnu regluna þar sem það er virkilega gott að hafa í huga þegar maður ætlar að búa með 83 stelpum í nokkra daga. Margar eru að fara að fyrsta skipti að heiman og kom smá heimþrá hjá mörgum þegar átti að fara að sofa. Við ræddum um hvað það væri eðlilegt að fá heimþrá en um leið og maður vaknaði vel hvíldur eftir nóttina þá liði manni betur. Einnig erum við öllu vanar hér, góðir knúsarar og bakstrjúkarar 🙂

Það átti að vekja um 9, en lang flestar voru vaknaðar fyrir það. Þá var gott að fá sér morgunmat.

Myndir koma inn áfram í dag, netið oft lélegt og hlaðast hægt inn… en nýjar fréttir á morgun!

Bestu kveðjur úr Kjósinni,
Hanna Lára forstöðukona og foringjar