Hæhæ… hér í Hlíðinni fríðu var að klárast vel heppnað náttfatapartý og eru bænakonurnar að koma stúlkunum ykkar í ró.
Það er búið að vera margt og mikið um að vera í dag og fengum við ágætisveður, allavega þurrt 🙂
Þær voru duglegar að hlusta og fygjast með á Biblíulestri og lærðu þar um að það væri alltaf hægt að varpa áhyggjum og kvíða í bæn og við ættum að vera duglegar að þakka fyrir það sem við hefðum, ekki alltaf að vera að biðja um meira og meira. Síðan tók við spennandi brennókeppni milli herbergja, íþóttakeppnir héldu áfram, föndur, spil, spjall og leikir áður en var farið í hádegismat að gæða sér á steiktum fisk og frönskum.
Eftir mat var farið í ferð að Pokafossi, þar var þeim sagt sagan af honum og farið í leiki. Stutt og fín ganga. Erum að treysta á sól á morgun svo að það sé hægt að fara að sulla eitthvað með þeim.
Í kaffinu var auðvitað nýbakað bakkelsi sem rann ljúflega niður.
Næstu fjögur herbergi voru með atriði á kvöldvöku og heppnaðist það mjög vel, alltaf svo skemmtilegt á kvöldvökum.
Við erum með eina starfsstúlku með okkur hér þessa viku frá Úkraínu og hafa stelpurnar æft sig að tala á ensku og kennt henni íslensku. Hún fór með þeim sem vildu fara í dag að týna blóm og kenna þeim að búa til blómakransa í hárið. Þeim sem tóku þátt fannst það mjög skemmtilegt.
En heimþrá lætur sjá sig af og til yfir daginn hjá sumum en við erum góðar í knúsunum og flestar fljótar að jafna sig og taka þátt í því sem við erum að gera þá stundina.
Endilega verið dugleg (og þolinmóð) að skoða myndir sem við erum að setja inn, netið oft leiðinlegt og myndirnar lengi að koma inn eða koma í tvíriti.
Símatími er milli 11.30 – 12.00, ef þið viljið heyra í forstöðukonu.
Kærleikskveðjur úr Kjósinni <3