Vá! Þvílíkur dýrðardagur sem við höfum átt í dag. Þessar frábæru stelpur ykkar vöknuðu svo glaðar og kátar eftir partýið í gær, sólin skein og allar tilbúnar í geggjaðan dag.

Flestar sváfu lengur en daginn á undan og voru orðnar svangar þegar kom að morgunmat. Þær hlupu upp á fána og sungu hann upp, (reyndar tvisvar því hann datt niður eftir fyrra skiptið), skelltu sér svo niður í kvöldvökusal á fræðslu, söngva og dansa. Þær fengu að heyra um fyrirgefninguna í gær og við rifjuðum aðeins upp og fengum svo leikrit um Faðir vorið, til að reyna að skilja það aðeins betur – auk þess að við ræddum um kvíða og hvernig allar tilfinningarnar okkar virka. Hvað við værum að eflast og þroskast þegar við tökumst á við nýja hluti og reyna alltaf sitt besta, þrátt fyrir að kvíða fyrir þeim.

Síðan héldum við áfram með brennó og er komið í ljós hvaða lið/herbergi keppa um 1.sætið og 3.sætið á morgun – gríðarlega spennandi keppni framundan.

Í hádegismat var lasagna og salat og síðan var haldið af stað i busl og sull ferð að Brúðarslæðu. Stelpurnar voru fyrst smurðar í sólarvörn og svo var farið af stað með nesti og handklæði. Ferðin var skemmtileg og flestir sem bleyttu sig allavega smá, sumir meira en aðrir 😉

Þegar til baka var komið var farið í stígvélaspark keppni og minniskeppni úti á fótboltavelli, föndrað, leikið í frjálsu brennó, rennt sér í aparólum og margt fleira skemmtilegt. Við vonum að þið séuð að njóta þess að skoða myndirnar sem við setjum inn þó að þær dælist hægt inn…

Í kvöldmat voru tortillur sem stelpurnar voru gríðarlega sáttar með.

Á morgun er veisludagur og það er ótrúlegt hvað þetta líður hratt, það eru nokkrar skráðar bara í rútu hingað uppeftir og gerum við þá ráð fyrir að þær séu sóttar hingað, en rútan fer á miðvikudag kl 14 svo það þarf að vera búið að sækja þær fyrir þann tíma. Mjög gott væri að fá símtal um það kl hvað þið höfðuð hugsað ykkur að sækja þær. Bara á morgun milli 11.30 – 12.00 🙂

Nú eru allir að leika sér áður en kvöldvakan hefst, þar sem síðustu fjögur herbergin verða með atriðin sín.

Sólar – og sumarkveðjur úr Hlíðinni fríðu, Hanna Lára forstöðukona og foringjar