Hæhæ… frábær veisludagur að ljúka hjá okkur í Vindáshlíð. Mikill svefngalsi er í stúlkunum og bænakonur að róa þær niður fyrir nóttina.

Við fögnuðum í morgunmat að þær væru formlega orðnar Hlíðarmeyjar, en samkvæmt hefðinni er það þegar maður hefur gist þrjár nætur í röð í Vindáshlíð.

Eftir fræðslu um Séra Friðrik, söng og gleði þá héldu allar niður í íþróttahús að horfa á úrslitaleikina í brennó… þar var mikið stuð og mikið fjör. Brennómeistarar spenntir fyrir morgundeginum að keppa við foringjana og reyna að vinna þær.

Lúsmýið birtist því miður hjá okkur síðustu nótt og eru nokkrar orðnar vel bitnar… þær sem klæja og vildu fengu afterbite, kláðakrem og ofnæmistöflur. Þetta er mjög leiðigjarnt þegar þær mæta á svæðið og pirrandi að klæja svona mikið. 🙁

Við fórum í kirkjuhópa eftir hádegismat, sem var geggjaður plokkari, til að undirbúa Guðsþjónustuna okkar sem við hringdum inn í klukkan 18. Við vorum með sönghóp, leikritahóp, undirbúnings – og kærleikskúluhóp og föndurhóp.

Áður en við héldum í krikjuna okkar, vorum við með vinagang þar sem stelpurnar gátu boðið hvor annarri upp á greiðslu, nudd, bangspösssun, spá og annað fleira skemmtilegt.

Pizzan var æði og var mikið klappað fyrir eldhússtarfsfólkinu. Þær fengu svo kærleikskúlur í eftirmat og síðan var haldið á veislukvöldvöku í boði foringja. Þar voru mörg skemmtileg leikrit og alls konar fjör. Svo var gott að komast í rólegheitin í setustofunni og fá sér smá ís til að kæla sig niður.

Dásamlegur dagur sem er að klárast, stelpurnar eru spenntar að hitta ykkur á morgun og segja ykkur frá ævintýrum sumarbúðanna. Því miður er myndasíðan alltaf að stríða okkur eitthvað og myndirnar lengi að hlaðast inn – en þær koma á endanaum… ekki gefast upp á að kíkja 🙂

Bestu kveðjur úr Kjósinni, Hanna Lára forstöðukona og foringar