Í morgun voru stelpurnar vaktar með Disney tónlist þar sem að þema dagsins var Disney. Foringjarnir klæddust í búninga eða föt sem tengdust Disney myndum eða merkinu sjálfu. Matsalurinn var skreyttur með disney persónum og disney skrauti. Í morgunmatinn var morgunkorn, hafragrautur og súrmjólk. Eftir morgunmat var gegnið upp að fána í fánahyllingu, síðan fóru þær allar niður í kvöldvökusal í biblíulestur. Í biblíulestri var talað um hvernig kristileg gildi Walt Disney eru sjánleg í öllum myndum sem hann framleiddi, einnig var talað um heimspeki Disney sem er að mestu leiti um það hversu mikilvægt það er að trúa á sjálfan sig og það sé í lagi að gera mistök. Næst á dagskránni var að föndurherbergið opnaði, íþróttakeppnir hófust, brennóleikir og vinabönd. Í hádegismat var dásamlegur steiktur fiskur með frönskum kartöflum. Þá var komið að útiveru, í dag fylgdum við þemanu og settum í gang Encanto leikinn okkar. Leikurinn gengur út á það að stelpurnar þurfa að hjálpa þremur persónum úr myndinni (Dolores, Luisa og Mirabel) að finna Brúnó sem hafði flúið. Stelpurnar þurftu að klára verkefni eða aðstoða persónurnar til þess að fá næstu vísbendingu, til þess að trufla þær í verkum sínum voru riddarar á stjá sem vildu stöðva þær í leitinni. Þær komu allar brosandi inn og gengu beint að kökulykt sem ilmaði frá eldhúsinu. Í kaffinu var sjónvarpskaka og kryddbrauð. Eftir Kaffi tók við föndur, íþróttir, brennó og vinabönd fram að kvöldmat. Í kvöldmatinn var ljúffeng mexíkönsk kjúklingasúpa sem rann létt ofaní stelpurnar. Í kvöldvöku var svo farið í leikinn capture the flag eða eins og er kallaður hér í Hlíðinni capture the Vindáshlíðar bolur. Stelpunum er skipt upp í tvö lið og þurfa liðin að vernda sinn bol frá hinu liðinu, leikurinn endar svo þegar annað liðið hefur náð að stela bolnum frá hinu liðinu og komið honum alla leið yfir á sitt svæði. Til þess að enda daginn fengu stelpurnar kvöldkaffi (perur og appelsínur) og svo inn í setustofu að hlusta á Steinunni foringja fara með hugleiðingu. Steinunn fór með æruleysisbænina og útskýrði svo hvað hún þýðir, eftir það fóru þær að bursta og var svo gott veður að við náðum að bursta í læknum. Eins og venjulega enduðu stelpurnar á því að eyða gæðastund með bænakonunum sínum.

 

Það eru komnar einhverjar myndir inná flicker síðu Vindáshlíðar, set linkinn hérna https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720300401785 og höldum við áfram að deila þeim hingað inn næstu daga.

 

Öðrum frábærum degi lokið og við erum allar rosalega spenntar að sjá hvað gerist næstu daga 🙂

 

Hlíðarkveðja

Andrea Anna Forstöðukona.